Fjöldi þeirra sem yfirgáfu Framsóknarflokkinn á erfiðleikatíma hans og hölluðu sér að Miðflokki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru nú á heimleið eða komnir heim í Framsóknarflokkinn aftur. Miðflokkurinn er rústir einar eftir þá hrikalegu útreið sem felst í niðurstöðu kosninganna og einhverjir eiga sér þá von að flokkurinn verði sameinaður móðurflokknum. Það er þó lítil von þar sem Sigmundur Davíð er enn fullur heiftar í garð Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem felldi hann á sínum tíma. Hávær orðrómur hefur verið uppi um að þungavigtarkonan Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi vildi fara sömu leið og liðhlaupar Miðflokksins og væri ákaft að leita að smugu til að komast heim til föðurhúsanna og yfirgefa hið sökkvandi skip. Sjálf þvertekur hún fyrir það í samtali við Mannlíf og segist ekki vera á förum úr Miðflokknum. Nú er bara að sjá hvað setur …