Síðast en ekki síst
Ég hugsa reglulega til samtals við fyrrum kollega minn. Þetta var um vetur og helmingurinn af fólkinu á skrifstofunni lá heima með inflúensu. Við kaffivélina andvörpuðum við yfir ástandinu, agalegt að vera svona lasinn. „Ég hef unnið hérna í sex ár og bara tekið einn veikindadag,“ sagði hann loks hróðugur. Mér fannst raunverulega mikið til koma og reiddi upp hægri höndina til að hlaða í eitt high five. Hvílík hundaheppni að verða svona sjaldan lasinn! „Jú sko,“ bætti hann við. „Ég mæti sko í mína vinnu þó að ég sé með hita og ógeðslega slappur. Ligg ekki í rúminu eins og einhver aumingi.“
Það runnu á mig tvær grímur. Skyndilega greip mig þörf til þess að færa höndina, sem ég hafði hafið á loft litlu fyrr, eilítið í suðausturátt og reka þessum samstarfsmanni mínum löðrung fyrir kjánaganginn.
Einhver benti á að ef hér kæmi upp bráðsmitandi og lífshættuleg farsótt myndi fjöldi fólks falla í valinn. Og það þrátt fyrir að nú væri boðið upp á talsvert betri heilbrigðisþjónustu heldur en til dæmis þegar spænska veikin herjaði á þjóðina fyrir rúmri öld. Það er nefnilega ekki móðins að liggja hálfeinangraður og veikur heima hjá sér.
Enginn dugnaður í því að taka það rólega, slökkva jafnvel á símanum, sofa, drekka nóg og leyfa líkamanum að jafna sig. Þá þykir betra að hólkast aftur hálflasinn til vinnu á hálfum afköstum, ef það, og reyna af veikum mætti að gera eitthvert gagn. Annars gæti vinnuveitandinn farið að ókyrrast, pirringur farið að sækja á samstarfsfólk.
Þetta er ekki eðlilegt fyrirkomulag. Ef maður er veikur, þá er maður veikur. Það verða alltaf til einhverjir gemlingar sem taka sér veikindadag án þess að vera veikir. Svoleiðis er það bara.
En það má ekki fæla fólk sem raunverulega verður lasið, frá því að nýta veikindarétt sinn. Þar fyrir utan er það einfaldlega ákveðið ábyrgðarleysi að mæta veikur til vinnu og deila jafnvel pestinni með samstarfsfólki og/eða viðskiptavinum. Ef maður er veikur, þá er maður veikur. Punktur.