Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Að elska barnið sitt   

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allir þekkja áhrifamikla sögu í Bíblíunni af tveimur konum sem komu fyrir Salómon konung og fullyrtu báðar að þær ættu kornabarn nokkurt. Ómögulegt var að skera úr um hvor sagði satt svo hinn vitri konungur greip til þess ráðs að hóta að skera barnið í tvennt. Þá brotnaði önnur niður og bað því vægðar og þar með var ljóst hvor bar meiri ást til barnsins, sú sem var tilbúin að láta af kröfu sinni vegna þess að það var barninu fyrir bestu. Oft verður mér hugsað til þessarar sögu þegar ég heyri af forsjárdeilum nútímans. Ég tek það fram að ég mun aldrei mæla með að börn séu neydd í umgengni við ofbeldismenn og hafi feður níðst á barnsmæðrum sínum leikur verulegur vafi á að börnum sé hollt að vera innan um slíka menn. Ég er hins vegar með í huga dæmi sem ég þekki af afspurn og úr minni nánustu fjölskyldu þar sem ósveigjanleiki og stjórnsemi ríkir milli foreldra barna. Annar aðilinn eða báðir eru ekki tilbúnir að koma á nokkurn hátt til móts við hinn og leitast jafnvel við að stjórna því sem fram fer þegar barnið er í umgengni við hitt foreldrið.

Er til dæmis eðlilegt að banna foreldri að fara út í nám með barn sitt? Er það ekki barninu fyrir bestu að forsjáraðilinn hafi góð tök á að sjá fyrir því og skapa því framtíð? Þess vegna hlýtur að vera merki um ást að gefa eftir sína kröfu og styðja fremur en hindra. Hvað með að banna barni að umgangast tiltekna ættingja sína eða reyna að setja skilyrði fyrir hvernig og hvenær það fær að hitta þá? Er þá ekki verið að svipta barn stórum hluta af sjálfu sér og gera foreldrinu verulega erfitt fyrir? Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir félagsráðgjafi þekkir forsjármál og deilur vegna umgengni mjög vel í gegnum starf sitt. Sjálf hefur hún reynslu af að alast upp hjá einstæðri móður og eiga pabba sem aldrei bjó hjá þeim.

Hennar upplifun var sú að hún tilheyrði aldrei fyllilega fjölskyldu föður síns en samt var mikil væntumþykja til staðar og engar illdeilur í gangi. Hennar öryggi var hjá mömmu en hjá pabba var hún alltaf gestur. Ragnheiður Lára er samt þakklát fyrir að þekkja uppruna sinn og vita að faðir hennar elskaði hana. Þegar barn er svipt öðru foreldri sínu tapar það nefnilega ekki bara einni manneskju heldur helmingnum af sjálfu sér. Hvað með ömmur, afa, frænkur og frænda? Á Íslandi er fengur í að eiga frændgarð. Mér er líka til efs að það þjóni hagsmunum barns að tjá sig opinberlega með stóryrðum um yfirgang hins foreldrisins og sorg sína vegna framkomu þess. Hlýtur spurningin ekki alltaf að vera: Hvað er best fyrir barnið?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -