Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Að hafa húmor fyrir eigin hræsni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Helga Baldvins Bjargardóttir 

Ég hef verið trúuð allt frá barnsaldri þótt hugmyndir mínar og trúariðkun hafi breyst og sveiflast ansi mikið í gegnum tíðina. Í dag trúi ég mest á mannréttindi og reyni að iðka þá lífsskoðun í mínu daglega lífi. Í sem einföldustu útgáfu snýst það um að stunda andlegar crossfit-æfingar þar sem ég virkja vöðva virðingar og hugrekkis á milli þess sem ég hef laufléttan húmor fyrir eigin hræsni.

Virðing í verki

Mér finnst ég alin upp í samfélagi, sem er eins og eilífur 8. bekkur, þar sem allt gengur út á að flokka fólk eftir því hvort það er kúl eða ekki kúl. Þar sem öllum finnst eðlilegt að snobba upp fyrir sig og sparka niður fyrir sig, en halda því fram á sama tíma að allir búi við sömu tækifæri og lúti sömu lögmálum. Því meira sem ég reyni að sýna öllu fólki virðingu, þeim mun meira opnast fyrir mér eitthvað hrikalegt pandórubox fullt af alls konar neikvæðum og meiðandi hugmyndum og staðalímyndum sem ég drakk í mig með móðurmjólkinni og úr menningunni. Hugmyndum sem samræmast engan veginn sjálfsmynd baráttumanneskju fyrir mannréttindum. En það er þó allavega hægt að byrja að þrífa þegar drullan er komin upp á yfirborðið, því ekki hverfur hún við afneitun.

Þar sem crossfit er erfiðasta líkamsrækt sem ég hef prófað, þá finnst mér besta líkingin vera andlegt crossfit. Þessi andlega íþróttaæfing að vera stöðugt að grípa sjálfa sig í miðju kafi mannfyrirlitningar og fordóma, staldra við og ná að snúa af þeirri braut, er það erfiðasta sem ég geri. Það eru svo margir hópar í samfélaginu sem teljast „ekki kúl“ og er svo auðvelt að dæma og setja fyrir neðan sig. Ef vöðvi virðingar er ekki virkjaður getum við hæglega fundið okkur, alveg ómeðvitað, í þeirri stöðu að vera búin að gefa afslátt af mannréttindum, sem eiga að vera algild. Að vera óvart búin að réttlæta meðferð á öðru fólki, sem við myndum aldrei sætta okkur við sjálf, af því fólkið er feitt, aldrað, fatlað, fátækt, hinsegin, af öðrum uppruna eða á flótta.

Hugrekki er smitandi

- Auglýsing -

Einu sinni hélt ég að mannréttindabarátta væri fólgin í því að benda á aðra, auðvitað aðra sem standa sig verr en ég, skamma þá og jafnvel niðurlægja, allt fyrir málstaðinn. Eftir því sem ég iðka mitt andlega crossfit meira finnst mér baráttan snúast frekar um að hafa hugrekki til að raunverulega lifa gildin mín í verki. Að ég axli fyrst og fremst ábyrgð á sjálfri mér en hafi jafnframt þor og kjark til að kalla aðra til ábyrgðar. Af virðingu, en staðfestu. Lengi vel gerði ég það ekki. Ég heyrði vini tala um „mongólíta“ og ég sagði ekki neitt. En svo hugsaði ég um það í margar vikur af hverju ég þorði ekki standa með gildunum mínum og benda þeim á að þetta orðalag væri virkilega særandi og meiðandi fyrir stóran hóp fólks. Fyrir fatlaða vini mína, fjölskyldur þeirra og aðra.

Þegar ég svo fór að taka ákvörðun um það fyrirfram, hvernig ég ætlaði að bregðast við í svona aðstæðum, fór mér loksins að fara fram. Því oftar sem maður stígur út fyrir eigin þægindaramma til að standa með gildunum sínum, þeim mun auðveldara verður það. Ekki spillir fyrir að hugrekki er víst bæði smitandi og hvetjandi fyrir aðra að gera slíkt hið sama.

Húmor fyrir eigin hræsni

- Auglýsing -

Ef ég hefði ekki nettan húmor fyrir því hversu fullkomlega ófullkomin ég er, þá held ég að ég væri hreinlega bara löngu dáin úr skömm. Verandi mannréttindamamma þriggja barna, reyni ég markvisst og meðvitað að ala þau upp í virðingu fyrir grunngildum mannréttinda. Þess vegna er uppáhalds hræsnin sem ég stend sjálfa mig að, ítrekað, þegar ég skamma börnin mín fyrir að missa stjórn á tilfinningunum sínum, með engu öðru en að missa sjálf stjórn á tilfinningunum mínum og öskra á þau að „slaka á“.

Sem betur fer eru þau vel upp alin og láta mömmu sína heyra það þegar hún öskrar því „fullorðnir eiga ekki að öskra á börn“. Þá þarf ég að kyngja einhverju innbyggðu stolti sem lýsir sér í tilfinningunni um að ég sé betri en þau/viti betur en þau/ráði/megi gera það sem mér dettur í hug og reyna skipta hratt yfir í æðruleysisgírinn og biðjast afsökunar. Að horfa á viðurkenningarglampann í augum þeirra, þegar mamma, sem er fullorðin og ræður, biður þau afsökunar, léttir á samviskubitinu sem reynir að telja mér trú um að ég sé að skaða þau til frambúðar með því að vera stundum þreytt og pirruð og hafa ekki stjórn á tilfinningunum mínum.

Til vara safna ég í sérstakan sjóð fyrir framtíðar sálfræðimeðferð handa þeim þar sem þau geta leyst úr öllum mistökunum, sem við foreldrarnir gerum í uppeldinu, með sínum eigin meðferðaraðila.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -