Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Að láta drauma sína rætast krefst hugrekkis

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 33 tbl. Vikunnar 2020.

„Allir okkar draumar geta ræst ef við höfum hugrekki til að eltast við þá,“ sagði Walt Disney. Manni finnst það ef til vill óhugsandi þegar maður lætur sig dreyma um að ná einhverju takmarki, þetta eru jú „bara“ draumar. En hví skyldi það vera ómögulegt að ná markmiðum sínum og sjá drauminn verða að veruleika? Það getur virst ómögulegt að sjá fyrir sér að það geti raunverulega gerst og það krefst vissulega hugrekkis að stökkva af stað í eltingarleik við draumana. Ef til vill er það bara óttinn sem stoppar okkur af; óttinn við að fá höfnun, óttinn við að mistakast … En maður veit ekki nema maður láti á það reyna og er ekki betra að hafa prófað og mistekist heldur en að prófa aldrei og sitja uppi með eftirsjá?

Dagný Gylfadóttir hafði unnið sem tækniteiknari þegar hún missti vinnuna eftir hrun. Hún fékk fljótlega annað starf hjá sama fyrirtæki og vann þar í nokkur ár þar til hún stóð aftur uppi atvinnulaus. Þá ákvað hún að nota tækifærið og láta verða af því að verða keramikhönnuður. Hún hafði aldrei ætlað sér að læra keramik en langaði að læra myndlist og fór á nokkur námskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Segja má að það hafi verið fyrir orð miðilsins Amy Engilberts, sem sagði móður Dagnýjar að dóttirin ætti eftir að leggja fyrir sig keramik í framtíðinni og farnast vel í því, að hún ákvað að prófa leirrennslunámskeið og við það var ekki aftur snúið.

Í dag hannar Dagný keramikmuni undir nafninu DayNew og hefur nóg að gera. Hún segist alsæl með að hafa tekið þá ákvörðun að leggja þá list fyrir sig; hún elski leirinn og sé alltaf að læra nýja tækni og þróa sig áfram sem geri starfið svo áhugavert og skemmtilegt. En leirinn hefur ekki bara orðið hennar atvinna heldur segir Dagný að leirinn hafi líka hjálpað henni heilmikið við að fá útrás fyrir allar tilfinningarnar sem spruttu fram þegar maður hennar veiktist af eitlakrabbameini. Maður hennar náði heilsu á ný en þessi reynsla kenndi þeim að lífið er dýrmæt gjöf sem eigi að njóta á hverjum degi.

Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Og á morgun er ef til vill orðið of seint að ætla sér að eltast við draumana. Lífið er stutt og ef það er einhvern tíma rétti tíminn til að elta drauma sína og þrá þá er það núna. Núna. Því gærdagurinn er farinn og morgundagurinn er óskrifað blað. Hvað dreymir þig um að gera? Eitthvað sem virðist óyfirstíganlegt? Ýttu óttanum til hliðar og leyfðu hugrekkinu að leika lausum hala.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -