Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Að lifa og njóta

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 46 tbl. Vikunnar

Alltumvefjandi myrkrið og kórónuveiran hafa yfirtekið landið okkar. Helmingurinn af sumum fjölskyldum er í sóttkví eða einangrun og þetta ástand virðist ætla að ríkja að eilífu. En þegar ástandið er svartast byrja jólaljósin að kvikna á svölum húsa, glitra í görðum og tindra undir þakskegginu. Jólin lýsa upp skammdegið. Þau eru perlan sem gerir veturinn bærilegan og öll vonum við að samkomubanni verði aflétt og stórfjölskyldan geti komið saman eins og venjulega, börnin dansað í kringum jólatréð á jólaböllum og leikhúsin boðið okkur velkomin á jólasýningu. Þessi hátíð friðar, ljóss og mannkærleika opnar hugi manna, leyfir okkur að brosa og njóta. Það þarf ekki mikið til, engar stórar rándýrar gjafir, ekki yfirfljótandi skraut, eitt lítið kertaljós og smákaka á diski er stundum nóg til að skapa gleðileg jól.

Kökur eru einungis til þess að gera lífið sætara, gleðja augað og bragðlaukana og ekkert að því að gera sér þær að góðu á þessum árstíma. Tíma þegar sumir eiga erfitt með að gleðjast, eru einir eða finna ekki frið í sálinni.

Sylvía Haukdal er snillingur í að baka og skreyta kökur og hún veit að öll fegurð og sætleiki er til þess fallinn að gera lífið betra. Sjálf missti hún bróður sinn aðeins fimm ára gömul. Hann svipti sig lífi og það var erfitt fyrir lítið barn að skilja að hann væri farinn fyrir fullt og allt, kæmi ekki aftur eins og hann gerði úr skólaferðalaginu. Þess vegna styður hún undirskriftasöfnunina 39.is en henni var komið af stað til að hvetja stjórnvöld til að huga betur að geðheilbrigðismálum. Það er full ástæða til, 39 manns fallnir fyrir eigin hendi það sem af er ári.

Þetta hræðilega ár reynir á alla, sama hversu bjartsýnir þeir eru. Lífshættuleg veira herjar á heiminn, skógareldar leggja stór landsvæði í rúst, flóð rífa með sér mannvirki og verðmæti, vindar svipta burtu öllu sem á vegi þeirra verður og jarðskjálftar skilja eftir sig eyðileggingu og dauða þótt við hér á Íslandi höfum sloppið með það að hristast bara hressilega. Jú, við verðum að huga að andlegri líðan, rækta hana beinlínis og vinna hörðum höndum að því að bæta hana, ekki bara hjá okkur sjálfum heldur líka börnunum okkar, ættingjum og nágrönnum.

Munum að þegar jólin ganga um garð tekur sólin aftur að hækka á lofti og vonin um að aftur komi vor kviknar innra með öllum. Sífellt fleiri skreyta hús sín fyrr og tendra jólaljósin. Tökum þátt, njótum þess að horfa á ljósin í húsinu á móti, kveikjum kertaljós, bökum og berum fram fína köku á blárósóttum diski, það eykur bjartsýnina.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Kanónur í kökublaði Vikunnar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -