Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Að skanna andlitið fyrir kaffibolla

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á miðri háskólalóðinni í Miami er vatn þar sem ýmis dýr eiga híbýli m.a. stórar iguana-eðlur, skjaldbökur og fljúgandi fiskar. Fátt er betra en tilveran við vatnið í heitri golunni. Eins og svo oft áður sat ég þar með bók, langt komin með sushi dagsins þegar ungur maður vatt sér upp að mér, sagðist vera frá Google – og spurði: „Má ég skanna á þér andlitið?“ Það tók mig smá tíma í hitanum að átta mig. Þegar hann nam að ég væri hugsi yfir þessari bón tók hann fram söluræðuna, benti á símann minn og sagði að Apple væri hvort eða er farið að gera þetta.  „Í staðinn færðu líka ókeypis kaffibolla á Starbucks.“

Um daginn las ég að símar væru hleraðir í auglýsingatilgangi. Internetinu ber raunar ekki saman um hvort að síminn er hleraður eða hvort hann er að fylgjast með. En þegar við erum í dægrastyttingu á samfélagsmiðlum að gera kannanir á borð við: hvaða bítlalag ert þú, erum við oft að veita aðilum aðgang að upplýsingum okkar á samfélagsmiðlum sem þeir geta svo eftir atvikum nýtt og jafnvel selt þriðja aðila. Við vinirnir ræddum kíminn skapandi leiðir til að fara í mál vegna notkunar á gögnum sem safnað er með þessum hætti. Gögn – eru jú orðin það verðmætasta sem til er á internetöldinni.

Mig rámar ekki í að hafa veitt Apple leyfi til að nota hljóðnema símans til að hlera mig eða að skanna á mér andlitið við kaup á símtæki frá þeim. Rökhugsunin segir að heimildin hafi verið grafin í skilmálum sem ég samþykkti þegar ég opnaði símann eða t.d. í skilmálum frá forriti þriðja aðila, appi, sem ég hlóð inn á símann. Hvenær varð það samfélagslega viðurkennt að fela slíka háttsemi í smá letrinu í skilmálum? Hvenær gáfumst við upp fyrir tækninni og léttum okkur í léttu rúmi liggja að veita forritinu sem segir þér hvernig þú myndir líta út sem miðaldra maður óheftan aðgang að ýmiskonar persónuupplýsingum?

Er það raunveruleiki sem við samþykktum að síminn sé eftir atvikum að hlusta á samræður og leitarvélin safni gögnum um athafnir mínar á netinu til að vita hvaða auglýsingu eigi að skjóta að mér næst? Hvenær varð það partur af tilverunni að einhver vildi skanna á mér andlitið. Ekkert mál – fyrir 5 dollara inneign á Starbucks. Ríkir villta vestrið þegar kemur að internetinu?

Neytendum er safnað á bás og svo er otað að okkur allskonar efni eftir algóritmum – gögnin eru seld á nokkuð óheftum markaði í ýmsum tilgangi. Lausnin við þessari frelsisskerðingu innan Evrópu er eftirlit, strangari meðferð persónuupplýsinga þar sem undirliggjandi er reglan samkvæmt persónuverndarreglugerðinni að einstaklingar geti valið hvernig upplýsingar um þá er notaðar. En allt er svo sem leyft. Ég get ekki skilið persónuverndarreglurnar öðruvísi. Auðvitað gegn því að þú samþykkir skilmálana – sem allir lesa – sagði enginn aldrei. Stóru einkafyrirtækin í netgeiranum eru risar.

Tæknirisinn Google, móðurfélagið heitir Alphabet, er með stærstu markaðshlutdeild allra leitarvéla í heiminum eða um 90%. Einn af hverjum 20 í Evrópu notar Google til að leita að upplýsingum. Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins. Samkvæmt tölum hefur Facebook um 1,5 billjón neytendur í heiminum þar af 307 milljónir daglega neytendur í Evrópu. Facebook er orðin aðalauglýsingavélin – internetið sjálft. Instagram er svo í eigu Facebook er með um 100 milljónir notenda til samanburðar.

- Auglýsing -

Google, Facebook og Apple. Þessi fyrirtæki hafa hannað fínar vörur sem hafa breytt lífi okkar en eru hagnaðardrifin eins og önnur. Kenningin um frjálsan markað með sterku aðhaldi á við þar eins og annars staðar. Það á við beggja vegna Atlantshafsins, þó að Evrópa sé komin lengra í reglusetningu en Bandaríkin. Þá er samkeppni á tæknimarkaðnum afar takmörkuð enda meira og minna einokunarfyrirtæki.

Google var t.d. sektað um 1,5 billjón dollara um daginn fyrir að brjóta eigin reglur í tengslum við auglýsingar og aðgang að gögnum í Bandaríkjunum. Frá árinu 2017 hefur Google aukinheldur fengið því sem nemur 8,2 milljóna evra sektir fyrir að taka eigin þjónustu umfram aðra inn í leitarvélinni og ýta samkeppni í burtu. Ímyndið ykkur gagnasöfnin sem Google og Facebook eiga. Eðli málsins samkvæmt þarf að takmarka notkun þessara gagnasafna og skikka fyrirtækin til að veita aðgang að þessum gögnum ef það á að verða til heilbrigð samkeppni á markaðnum. Þá hefur persónuverndarreglugerðin leitt til lagalegs ágreining innan Evrópu en dómstólar munu leiða í ljós hver áhrif regluverksins er á geirann.

Þegar ungi maðurinn fékk neitun um andlitskönnun fyrir ókeypis kaffibolla komst ég ekki hjá þeirri tilfinningu að líða eins og í George Orwell bók og finna sterka tengingu við myndina Matrix – þar sem vélarnar tóku yfir að lokum. Ég hef alltaf upplifað internetið sem ákveðið frelsi apparat og aðhaldsbatterí gagnvart ofríki og spillingu. Þar flæða upplýsingar og leyndarhyggju er gert erfiðara fyrir. Frelsi internetsins er því miður blekking þar sem ósýnilegar hendur stýra því sem við fáum að sjá – að mörgu til þess að gera okkur háð, kaupa eða neyta. Að segja nei við kaffibollanum var því ákveðin valdefling en sýndi mér um leið hversu háð tækninni við erum orðin. Við teljum okkur vera að taka sjálfstæðar ákvarðanir en hversu mikið er þeim stýrt? Netið verður því ekki lengur táknmynd frelsis heldur fangelsis.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -