Fimmtudagur 23. janúar, 2025
2.6 C
Reykjavik

Að standa upp aftur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta snýst ekki um hversu oft þú dettur heldur hversu oft þú stendur upp aftur.“ Þessi frasi hefur verið hafður eftir mörgum mektarmanninum í sögunni, meðal annars Abraham Lincoln, Nelson Mandela og Armstrong Custer. En kannski skiptir ekki máli hver sagði þetta fyrst eða hvort einhver hafði almennt fyrir að orða þennan sannleika sem er okkur svo augljós. Það þarf ekki annað en að fylgjast með litlu barni taka fyrstu skrefin sín í lífinu til að sjá að þetta snýst vissulega um að standa alltaf upp aftur og reyna að nýju. Eva Ásrún Albertsdóttir, söngkona og ljósmóðir, er í forsíðuviðtali hjá okkur núna og hún er ekki líkleg til að liggja kyrr nái lífið að slá hana um koll.

Þegar drengurinn hennar veiktist varð hún að taka erfiðar ákvarðanir. Læknavísindin voru ráðþrota eða fundu í það minnsta enga skýringu á hvað olli. Sú veröld sem hún hafði starfað innan og lært að treysta var þegar á reyndi takmörkuð. Eva Ásrún tók, eftir þriggja ára baráttu við heilbrigðiskerfið, algjöra u-beygju í lífinu og fór að læra RIM-tækni. Hún segir sjálf að það hafi ekki verið fyrr en hún lærði að treysta eigin innsæi að hlutirnir tóku að þokast í rétta átt.

Löngum hefur tilfinningum fólks og skynsemi verið stillt upp sem andstæðum pólum. Okkur sagt að leggja kalt mat á hlutina og þá átt við að rökhyggjan eigi ein að ríkja og að hjartað eigi ekki erindi að borðinu nema í einstaka málum. Undanfarin ár hefur það verið að renna upp fyrir fólki hversu rangt þetta viðhorf er og hversu oft það leiðir okkur í ógöngur. „Tilfinningar manns eru skynsamari en maður heldur,“ segir hún og það eru orð að sönnu.

Tilfinningar eru flókið fyrirbæri. Þær byggja að hluta til á eðlisávísun sem okkur, eins og öðrum dýrum, er gefin í vöggugjöf. Síðan þroskar reynslan þessa náttúrulegu hvöt og líklega kannast flestir við að finna ýmislegt á sér. Finna ef eitthvað er ekki rétt við ákveðna manneskju eða aðstæður. Mjög oft ýtum við þessu frá okkur og höldum áfram eins og ekkert hafi ískorist. En tilfinningarnar eru skynsamar. Hversu oft hefur þessi fyrsta tilfinning ekki reynst rétt og þá nagar fólk sig í handarbökin fyrir að hafa bælt hana niður. Eva Ásrún er að ljúka nýju meistaraprófi rúmlega sextug og er þess fullviss að það sé aldrei of seint að taka aðra stefnu eða finna leiðir til að hjálpa sjálfum sér og öðrum. Við höfum öll val; annaðhvort að liggja kyrr ef höggið slær okkur niður eða standa upp og halda áfram að berjast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -