Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Að stökkva á tækifærin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 35 tbl. Vikunnar

Í þessu blaði er að finna pistil eftir Mörtu Eiríksdóttur um tíma nýrra tækifæra. Líklega hefðu fæstir tengt þessa seinni bylgju COVID-19 við tækifæri en þannig lítur Marta á það. Hún telur að hugsanir okkar stjórni líðan okkar og með því að breyta sjónarhorni okkar á hlutina geti það verið byrjun á nýrri og betri tíð. Það er án efa sannleikur í þessu fólginn og forsíðukonan okkar, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, nýr forstöðumaður Matvælastofnunar, eða MAST, hefur ástríðu fyrir ótalmörgu í lífinu, meðal annars heilbrigðu líferni, hjólreiðum og að sinna börnunum sínum.

Það er nokkuð víst að Hrönn Ólína er rétt kona á réttum stað því hún er efnafræðingur að mennt og hefur sérhæft sig í áhrifum mengunar á menn og dýr. En án nokkurs vafa er það að draga úr mengun stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag og kórónuveiran aðeins lítilvæg bóla miðað við það risastóra verkefni sem við eigum fyrir höndum. Hrönn Ólína er líka dýravinur og nauðsynlegt er að einn slíkur stjórni þessari stofnun því eitt af verkefnum hennar er að tryggja velferð dýra í landinu. Allt of lengi hefur maðurinn litið svo á að hann eigi tilverurétt umfram dýrin, að hans hagsmunir vegi þyngra en annarra lífvera.

Framganga okkar hefur einkennst af algjöru sinnuleysi og grimmd og aftur og aftur sannast hið fornkveðna að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Gott dæmi um það eru úlfarnir í Yellowstone. Þeim var útrýmt á þessu svæði af bændum en þegar vísindamenn slepptu nokkrum villtum pörum aftur á svæðið komst jafnvægi á lífríkið að nýju og jurtir og dýrategundir sem höfðu horfið vegna offjölgunar annarra tegunda tóku að blómstra á ný. En nú þegar höfum við tapað mörgum tegundum og þær fást aldrei aftur. Þar með höfum við þar með misst tækifæri og stundum lífsnauðsynlegan hlekk í lífkeðjunni. Nú eru til dæmis villtar býflugur í útrýmingarhættu og hver mun frjóvga ávaxtatrén þegar þær hverfa? Hvað með regnskógana sem verið er að ryðja á stórum svæðum? Þar leynast jurtir og dýr sem enginn veit enn hvaða hlutverki gegna eða hvaða eiginleika þau hafa til að bera.

Margir Íslendingar eru þess fullvissir að hér sé lítil mengun og vel búið að dýrum bæði villtum og tömdum en svo er ekki. Hreindýrin á Austurlandi voru til að mynda hrakin af vetrarslóðum sínum þegar Kárahnjúkavirkjun var reist og nú leita þau niður í byggð og skapa hættu á vegum á Austfjörðum. Virkjanir í Þjórsá hröktu heiðargæsirnar á flótta og mjög víða hefur gróðurvinjum verið sökkt án nokkurrar eftirsjár.

Hrönn Ólína segir vinnuna vera sér bæði ástríðu og áhugamál og sem ungur vísindamaður í námi fann hún neistann innra með sér í því að stuðla að því að gera heiminn betri, leysa á þverfaglegan hátt sum þessara aðkallandi vandamála. Það verður gaman að fylgjast með henni í starfi og tilhlökkunarefni að sjá hvernig hún leysir málin úr forstöðumannsstóli.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Vill taka þátt í að leysa heimsvandamálin 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -