Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Að þekkja sjálfan sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarin ár hefur mikið verið talað um að einstaklingar þurfi að rækta sjálfa sig, þekkja langanir sínar og þarfir og kunna að leggja línurnar um hvert lífið eigi að stefna. Þetta hljómar óskaplega einfalt en er það ekki í raun. Sum okkar vita ekki nákvæmlega hver þau eru eða hvert þau vilja fara. Þá eru breytingar lífsins iðulega tilkomnar vegna straumkasts í ánni sem fleytir þeim að næstu grynningum fremur en sjálfstæðri og meðvitðri ákvarðanatöku. Þeir eru heppnir sem ná að móta eigin vilja og skilja hvað gefur lífi þeirra gildi. Unnur Steinsson er ein þeirra. Hún var ung kosin fegurðardrottning Íslands og það þarf sterk bein til að þola þá athygli sem slíku fylgir. Allir hafa skoðun á opinberri persónu og þykjast vita sitt hvað um hvernig hún hagar lífi sínu. En enginn veit nokkru sinni fyllilega hvað undir annars stakki býr. Unnur orðar þetta mjög vel í forsíðuviðtalinu: „Ef þú hefur ekki orðið vitni að einhverju með eigin augum og eyrum, ef viðkomandi sagði þér ekki eitthvað sjálfur, þá er ekkert til í því sem sagt er. Fólk er alltaf tilbúið að benda á aðra en gleymir því að þegar maður bendir með vísifingrinum á einhvern er maður að benda með þremur öðrum fingrum á sjálfan sig. Svo hef ég líka alltaf vitað sjálf hvað ég stend fyrir.“

Þetta finnst mér lýsa sterkum og heilsteyptum persónuleika. Að vita hvað maður stendur fyrir er mikil gæfa vegna þess að þá mótar þú sjálf/ur örlög þín, ert ekki „reikult rótlaust þangið“ sem rekst um víðan sjá. Einmitt vegna þessa gat Unnur tekið erfiðar ákvarðanir og staðið með sjálfri sér þegar á þurfti að halda. Hún gekk í gegnum skilnað og það ferli er engum auðvelt og ákvað á dánarbeði móður sinnar að flytja út á land. Það hafði lengi verið draumur og sumir hafa ekki þor til að láta draumana rætast. Þeir eru komnir á ágætan og öruggan stað í lífinu og telja hentugra að rugga ekki bátnum. Óttinn við að misheppnast og missa eitthvað heldur svo oft aftur af okkur. Ef á hinn bóginn þú veist hvað þú stendur fyrir og að hvernig sem fer muntu axla ábyrgð og leysa úr málunum er auðveldara að taka stökkið.

Tengsl manna og náttúru verða að mínu mati einnig sterkari með aldrinum. Þörfin fyrir þá næringu sem móðir Jörð veitir með fegurð sinni, kyrrð og hlýju. Unnur sækir hana í umhverfið í Stykkishólmi og umgengnina við hestana sína. Að tengjast á þann hátt er góð leið til að kynnast sjálfum sér og skynja bæði takmarkanir sínar og getu. Það hjálpar mönnum að þekkja sjálfan sig, velja sín gildi og standa með þeim.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -