Síðast en ekki síst
Ég tek nokkuð oft eftir því að stjórnmálamenn og -konur saka hvert annað um að vera barnaleg. Að draga umræðuna niður á leikskólastig, ofan í sandkassann og þess háttar. Hins vegar hef ég líka tekið eftir því (og þið megið alveg taka mark á mér, ég er nefnilega stjórnmálafræðingur) að margir af áðurnefndum stjórnmálamönnum mættu einmitt og endilega tileinka sér margt af því sem fellur undir það að láta eins og lítið barn.
Dóttir mín er tveggja ára. Nýlega byrjaði hún í leikskóla og er himinsæl, enda er starfsfólkið þar frábært fólk sem annast hana afskaplega vel. Áður en leikskólagangan hófst, og við vorum enn heima saman, voru þriðjudagsmorgnar í sérstöku uppáhaldi. Þá kom nefnilega ruslabíllinn inn í götuna okkar. Starfsfólkið á honum vippaði ruslatunnunum okkar fram og losaði innihaldið fimlega í bílinn. Hrifning og aðdáun dóttur minnar á starfsfólki ruslabílsins var taumlaus og einlæg. Fyrir henni er það ekkert minna en rokkstjörnur. Einu sinni veifaði hún til þeirra af svölunum og þau veifuðu til baka. Það var góður dagur.
Við mæðgur fórum niður í bæ um daginn. Það var hálfkalt í veðri svo sú stutta klæddist kuldagallanum sínum. Í Austurstræti mættum við annarri manneskju sem líka var klædd í kuldagalla. Sá maður var eflaust um það bil hálfri öld eldri en dóttir mín, hélt á poka í annarri hendi og bjórdós í hinni. Þegar við mættum honum brosti hún til mín og sagði hrifin: „Líka í galla!“
Lítil börn búa yfir heilindum. Þau verða vissulega ósátt en eru fljót að biðjast fyrirgefningar eða þiggja hana. Þau tjá skoðanir sínar og langanir og þau taka eftir því sem skiptir mestu máli. Þau vita líka eins og er að öll erum við í rauninni eins. Á grunni fræðilegrar þekkingar minnar biðla ég þess vegna til stjórnmálamanna að gera eitt: Vera aðeins barnalegri.