Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

Aðförin að sannleikanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari

Eftir / Magnús Geir Eyjólfsson

Það voru ekki nema mínútur liðnar af forsetatíð Donalds Trump þegar fyrsta lygin var borin á borð. Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins hélt því blákalt fram að aldrei hafi jafnmargir verið viðstaddir innsetningarathöfn forseta og þann daginn um leið og hann sakaði þá sem héldu öðru fram um að bera út falskar fréttir. Þetta fullyrti hann þrátt fyrir að sjónvarpsmyndir, talningar opinberra aðila og allar aðrar fyrirliggjandi staðreyndir sýndu svart á hvítu að þetta var fjarstæðukennt rugl. Könnun sem birtist nokkru síðar sýndi, þrátt fyrir allar fyrirliggjandi staðreyndir, að einungis 56 prósent Bandaríkjamanna  treysti sér til að fullyrða að þetta væri rangt. Þetta var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi því fyrstu tvö ár hans í embætti hafði hann sett fram 8.158 rangar eða misvísandi fullyrðingar. Maðurinn sem skipar valdamesta embætti heims lýgur að meðaltali sex sinnum á dag!

Upplýsingabyltingin sem við upplifum hefur haft það í för með sér að sannleikurinn á undir högg að sækja. Skoðanir, sama hversu fjarstæðukenndar þær kunna að vera, eru farnar að hafa sama vægi og staðreyndir. Tilfinningar trompa rök. Þessi þróun hefur margar og alvarlegar afleiðingar. Ein sú alvarlegasta er að það molnar undan trausti í samfélaginu. Almenningur missir trú á stjórnmálin, kerfið, dómstólana, fjölmiðla og umfram allt náungann. Þegar maðurinn hættir að geta tekið mark á staðreyndum tekur eðlishvötin yfir. Þar er óttinn ríkjandi tilfinning.

Bæði á Íslandi og úti í heimi sjáum við hvernig lýðskrumarar spila á ótta fólks til að koma sjálfum sér og sinni ofstækisfullu hugmyndafræði á framfæri. Uppskriftin er alls staðar sú sama. Fyrst er að finna óvin sem hægt er að kenna um meinsemdir samfélagsins. Þetta geta verið pólitískir andstæðingar, embættismenn, fjölmiðlar eða, þeir sem oftast verða fyrir valinu, útlendingar. Þessi ímyndaði óvinur er ógn og hefur í hyggju að mergsjúga samfélagið og þeir einu sem geta stöðvað þessa ógn eru lýðskrumararnir sem vara við henni. Lyginni er dreift sem víðast og endurtekin nógu oft þannig að hún fer að hljóma eins og algildur sannleikur. Markmiðið er ekki alltaf að sannfæra fólk, heldur fá það til að efast um sannleikann.

Birtingarmyndirnar, stórar sem smáar, sjáum við víða. Forsetatíð Trumps og þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit eru einhvers konar árshátíðir að þessu leyti. Í Ungverjalandi situr ríkisstjórn sem hefur tekið yfir alla helstu fjölmiðla og fjöldaframleiðir samsæriskenningar í massavís. Það þarf ekki einu sinni ríkisstjórnir til. Víðs vegar um heiminn, í Svíþjóð til að mynda, spretta upp fjölmiðlar sem hafa það eitt að markmiði að ala á ótta gagnvart innflytjendum. Þessi sömu öfl afneita meira að segja viðteknum sannindum um hlýnun loftlags á jörðinni. Hér heima hafa ákveðnir aðilar séð sér hag í að reka fleyga í samfélagið undir flaggi þjóðernishyggju. Skólabókardæmi um þetta eru umræðan um þriðja orkupakkann og málefni hælisleitenda.

Svo virðist sem íslensk stjórnvöld séu meðvituð um vandamálið. Skipaður var starfshópur til að koma með tillögur um að efla traust á stjórnmálum og til stendur að efla rekstrarumhverfi fjölmiðla í því skyni að efla sjálfstæði þeirra. Eins góðar og þessar tillögur eru er hætt við að þær dugi skammt. Það þarf eitthvað mun meira og róttækara að koma til.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -