Sunnudagur 22. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Afbrot jólasveina á aðventunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óvenjulegar mannaferðir eru sérstaklega algengar á þessum tíma árs, þegar rauðklæddir ellihrumir karlar vaða inn og út um allt á skítugum sauðskinnsskónum. Frá 12. desember og til jóla mætti segja að yfir landið fari afbrotahrina, þegar börn keppast við að tilkynna foreldrum sínum um hvert annað húsbrotið. Auðvitað er þetta allt til gamans gert, en ef við ætluðum að heimfæra refsiramma íslenskra laga upp á sveinana 13, þá kynnu nú einhverjir þeirra að vera í vondum málum.

Stekkjastaur er fyrstur og er hann sagður vera bróðir Grýlu í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það er auðvitað ekkert sem bannar manni það að eiga systkini sem éta óþekka krakka, en það er slæmt svona PR-lega séð. En Stekkjastaur var jafnframt sagður vera „grimmur við unga sveina“ sem hæglega mætti finna stað í refsirammanum. Þannig segir í 1. mgr. 99. gr. barnarverndarlaga nr. 80/2002, að hver „sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.“

Í 3. mgr. sömu greinar er svo tekið fram að hver „sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“ Stekkjastaur gæti því auðveldlega verið í vondum málum.

Ekki verður séð að Stúfur sé eitthvað sérstakt illmenni. Af þeim heimildum sem undirritaður hefur viðað að sér, er það kannski helst saklaus stríðni sem hann hefur gerst sekur um, til viðbótar við húsbrot inn á hvert einasta barnaheimili aðfararnótt 14. desember. Húsbrot fellur undir 231. gr. almennra hegningarlaga, sem kveða á um að ef „maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns, eða annan honum óheimilan stað, eða synjar að fara þaðan, þegar skorað er á hann að gera það, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Þó má beita fangelsi allt að einu ári, ef miklar sakir eru, svo sem ef sá, sem brot framdi, var vopnaður eða beitti ofbeldi eða hótun um ofbeldi eða brot er framið af fleirum saman.“ Það er kannski helst þetta síðast talda, sem jólasveinarnir ættu að hafa áhyggjur af, enda ljóst að þessi endalausu húsbrot á hverri einustu nóttu í 13 nætur fyrir jól eru samantekin ráð þessara manna.

Til viðbótar við framangreint er ljóst að nokkrir af jólasveinunum eru fingralangir. Þannig er talið að Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Ketkrókur og Kertasníkir séu eitthvað í að hnupla frá fólki þeim munum sem þeir eru kenndir við. Og það er auðvitað bannað. Þannig varðar brot gegn þjófnaðarákvæði almennra hegningarlaga við allt að sex ára fangelsi og þegar um er að ræða stórfelld þjófnaðarbrot eða síendurtekin, jafnvel í félagi margra aðila, er ljóst að refsingin yrði nokkuð ströng og aldrei nálægt lágmarki ákvæðisins sem kveður á um þriggja mánaða fangelsi.

Auk þess að vera fingralangir, verður að segja að það sé líklegt að Gluggagægir sé ekki sá eini sem er að góna inn um glugga í mannabyggðum. Það er náttúrulega bannað og fellur undir blygðunarsemisbrot, sbr. 209. gr almennra hegningarlaga. Refsiramminn í blygðunarsemisbrotum er 4 ár, en fyrir smávægileg brot er botninn 6 mánuðir. Í ljósi síendurtekinna ferða jólasveina á glugga landsmanna, verður að teljast líklegt að þeir færu upp í efri mörk refsirammans.

- Auglýsing -

En hvað þá með þriðja vinsælasta jólasvein Íslands, Hurðaskelli? Til viðbótar við húsbrotið og blygðunarsemisbrotið mætti sjálfsagt hanka hann á því að brjóta 4. gr. lögreglusamþykkt Reykjavíkur (og sambærileg ákvæði hjá öðrum sveitarfélögum) sem bannar fólki að „hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.“ Þegar allt er saman tekið stefnir því í að Hurðaskelli verði stungið í steininn. Og fangaklefanum skellt á eftir honum!

Gleðileg jól!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -