Ein helsta skemmtun okkar púkanna á Flateyri var að fara í bíó í Samkomuhúsinu. Tvisvar í viku voru sýningar á blómatíma bíóferðanna. Á sunnudögum voru barnasýningar og á fimmtudagskvöldum voru myndir sem á stundum voru harðbannaðar yngri en 16 ára.
Ég hef líklega verið orðinn 11 ára þegar þörf okkar krakkanna í þorpinu til að komast á bannaðar myndir varð til þess að við fundum okkar leið í bíó; framhjá miðasölunni.
Sýningatjaldið var einfaldlega þannig að því var slakað niður þegar sýningar stóðu. Þá lokaðist senan eða sviðið, sem hafði annars það hlutverk að þjóna sem hluti leikhúss. Lausnin til að komast í bíó var einfaldlega fólgin í því að komast inn að tjaldbaki.
Eftir nokkrar pælingar fundum við leiðina í bíó. Kjallaragluggi baksviðs var kjörinn til þess að skríða inn og koma sér fyrir á sviðinu. Gallinn var sá helstur að myndin var spegluð rétt eins og íslenski textinn. Við vorum nokkur hópur sem gerðum þetta að vana á fimmtudögum. Framan af gekk þetta vel og við nutum þess að horfa á myndir á borð við þær helbláu sænsku myndir Ég er forvitin blá og Ég er forvitin gul í bland við aðrar myndir sem voru siðsamari og hlaðnar morðum fremur en samförum.
Mig minnir að við púkarnir höfum verið stjarfir að horfa á Forvitin blá Þegar skelfingin dundi yfir. Á einum hápunkti myndarinnar greip sýningarstjórinn til þess óyndisúrræðis að lyfta tjaldinu. Grunur hafði fallið á okkur og glæpurinn var upplýstur æi beinni. Skyndilega komst upp um okkur. 10 krakkaormar voru berskjaldaðir fyrir augum þeirra þorpsbúa sem komu réttu megin í bíó. Í refsingarskyni vorum við látin ganga þau svipugöng að fara í gegnum salinn í sömu svifum og tjaldið var látið síga aftur og sænskar stunur tóku sig upp að nýju. Okkur var tilkynnt að við værum komin í þriggja mánaða straff í Samkomuhúsinu.
Staðan var snúin. Það var búið að rígnegla fyrir gluggann sem var hlið okkar að fullorðinsmyndunum. Lífsgæði okkar höfðu verið skert gríðarlega. Við fengum ekki einu sinni að fara á barnasýningar og jólaballið var í uppnámi. Eftir nokkur leynileg fundarhöld duttum við niður á lausn. Einn okkar félaganna var svo heppinn að móðir hans sá um ræstingar og hafði lykla að bakdyrum Samkomuhússins. Hann sagðist vera fús til þess að ræna lyklunum á fimmtudögum og hleypa okkur inn bakdyramegin. Hann þyrfti þó að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Hóflegt gjald nam hálfu miðaverði. Innbrotið okkar hafði verið einkavætt. Við féllumst á gjaldið.
Til að tryggja öruggt áhorf voru settar skýrar reglur um að við bakdyrafólkið mættum ekki vera í fatnaði sem skrjáfaði í. Nælonúlpurnar gömlu og góðu voru harðbannaðar. Þá var bannað að hnerra eða gefa frá sér önnur hljóð. Kvefaðir máttu alls ekki mæta á sýningar. Til þess að forðast enn frekar að verða uppvís ef tjaldið lyftist voru þær reglur í gildi að við komum okkur fyrir inni í leikfimihestum sem geymdir voru baksviðs. Þeir voru þannig útbúnir að gera mátti á þá rifu sem við horfðum út um. Ef Láki sýningarstjóri lyfti tjaldinu var leikfimihestunum lokað hægt og hljótt. Svo biðum við eftir að tjaldið sigi aftur niður.
Þetta fyrirkomulag gekk ágætlega og við náðum margri góðri myndinni og höfðum náð tökum á því að lesa speglaðan texta til að halda þræði. Ef rétt er munað komst ekki aftur upp um okkur og fyrr en varði var barnæskan að baki og maður gat farið rétta leið inn í Samkomuhúsið og notið þess að horfa á erótíkina óspeglaða.
Þesssi saga er í meginatriðum sönn. Nöfn þeirra sem koma við sögu verða ekki gefin upp en fólki er velkomið að játa í athugasemdakerfinu. Glæpirnir eru fyrir löngu fyrndir.