Síðast en ekki síst
Höfundur / Stefán Pálsson
Ég var atvinnulaus hálft sumarið sem ég var nítján ára. Í fyrstu fannst mér það bara fínt – svona fyrir utan blankheitin – en eftir því sem vikunum fjölgaði varð erfiðara að togast fram úr á morgnanna. Svefninn fór í tómt rugl og smátt og smátt hægðist á allri heilastarfsemi. Ég varð skapillur, dapur og undir rest var það orðið stórverkefni að hafa sig niður í bæ til að fá vikulega stimpilinn hjá vinnumálaskrifstofunni. Samt var ég táningur sem bjó við allsnægtir í foreldrahúsum og þurfti í raun engar áhyggjur af hafa.
Þessar vikur rifjuðust upp fyrir mér í vetur þegar ein af þessum skrítnu tilviljunum í lífinu varð til þess að ég kynntist nítján ára strák, hælisleitanda sem kominn er til Íslands í von um líf án kúgunar og ógnar. Ég varð ekki hissa þegar yfirvöld útlendingamála komu honum fyrir í blokk á gamla herstöðvarsvæðinu sem nú nefnist Ásbrú, á meðan unnið var úr hælisósk hans. Slíkt er alvanalegt.
Það sem kom mér hins vegar á óvart var að uppgötva að þessum mönnum, sem flestir eru ungir karlmenn, væri haldið í algjöru aðgerðarleysi. Þeim er að sönnu tryggð læknisþjónusta og þeir fá örlitla fjárhæð sem tryggir að þeir svelti ekki, en þar með er það upptalið. Líf þeirra er endalaus bið inni á herbergi eftir næsta viðtali. Dag eftir dag. Viku eftir viku.
Ég vissi að hælisleitendur á Ásbrú fengju ekki strætókort til höfuðborgarsvæðisins sem þó væri leið til að rjúfa félagslega einangrun þeirra. En mig óraði ekki fyrir því að þeir hefðu engan aðgang að líkamsrækt, sundlaug, bókum … Að halda lifandi manneskju aðgerðarlausri er ein tegund pyndingar.
Í fjörutíu daga sá ég unga vin minn verða veikari, fyrst líkamlega og síðan andlega. Loks endaði hann fárveikur á Landspítalanum með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð og mögulega varanlegu heilsutjóni hans. Hvort tveggja hefði mátt fyrirbyggja með einfaldri líkamsræktaraðstöðu eins og finna má í flestum sundlaugum. Sýnum mennsku og hættum að pynda menn sem eiga að heita skjólstæðingar okkar.