Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Blessað hugaraflið – Gleðilegt nýtt ár!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur aftur.

Og allt það.

Allt fer í hringi og enginn veit hvar og hvernig þetta byrjaði allt og hvenær og hvernig þetta muni enda; lífið.

Jú, eina sem við vitum þegar við verðum aðeins eldri er að dauðinn er óumflýjanlegur og að himininn er ekki blár.

Sem betur fer.

Mjög margir nota tækifærið og líta um öxl um áramót og velta því fyrir sér hvað betur hefði mátt fara á árinu sem nú er liðið og hvers vegna hlutirnir æxluðust á þennan veg en ekki hinn.

- Auglýsing -

Oft eru á þessum tímamótum grátin glötuð tækifæri og þetta verður því oft einhverskonar uppgjörstími.

Mín ráðlegging er bara að dusta rykið af herðapúðunum og horfa bjartsýnn og algerlega vonlaus á lífið ráðast á annað líf sem gerði ekkert annað en að fæðast og bað alls ekki um það.

Segið þessu liði að fokka sér og að þú sért með allt á hreinu; annars trúir þér enginn.

- Auglýsing -

Að uppgjörstímanum áðurnefnda afloknum (þetta uppgjör tekur yfirleitt ekki langan tíma) er síðan horft björtum og tárvotum augum fram á veginn og sjálfum sér og öðrum lofuð bót og betrun.

Sama helvítis lygin ár eftir ár og enginn tekur eftir neinu nema útsölunni í Hagkaup í Garðabæ og á Eiðistorgi.

Það er misjafnt hvað efst er á bætingarlista hins nýja árs; sumir ætla að hætta að drekka, aðrir að hætta að reykja, einhverjir setja stefnuna á að gera betur í vinnu eða námi og svo tel ég líklegt að flestir vilji bæta sig sem manneskjur, enda er það alltaf hægt.

Staðan pínu þannig að flestir eru búnir að troða óhóflegu magni af rauðu og reyktu kjöti í belginn á sér og skola því niður með allskyns dásamlegum óþverra eða óþverralegum dásamleika; svo er vaknað á vigtinni með vindverki, brjóstsviða, þynnku og mikla þörf fyrir endurbætur á líkama og sál.

Sá er þetta ritar er ekki sérlega gáfaður og einmitt týpan sem lærir sjaldan eða jafnvel aldrei af mistökum sínum; og er yfirleitt svo tví- eða þríklofin í afstöðu sinni, áhugamálum og atvinnu, að það er álíka líklegt að hollráð frá mér myndu nýtast til árangurs og það að Jón Gunnarsson myndi játa að hann elskaði skilyrðislaust alla útlendinga burt séð frá uppruna, lit, stétt og stöðu – að hann væri í raun góður og vildi öllum vel.

Eitt veit ég þó af fenginni reynslu úr ýmsum áttum að það er alveg sama hvaða aðferðum þú beitir í þeirri viðleitni þinni að ná þeim árangri sem þú sækist eftir – ekkert virkar fylgi hugur ekki máli.

Hugurinn er sterkasta afl sem til er og því er erfitt að stjórna honum.

Takist það er hins vegar ekkert ómögulegt. Og sé ekkert ómögulegt, því ættir þú ekki að geta stjórnað þínum eigin huga?

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -