Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Börn kvótans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjóðin stendur á öndinni yfir því útspili aðaleigenda Samherja að færa börnum sínum fyrirtækið á silfurfati sem fyrirframgreiddan arf að hluta. Auðævin sem börn kvótans fá í sinn hlut nema rúmum 60 þúsund milljónum króna. Þau barnanna sex sem eignast mest fá 15 þúsund milljónir króna í sinn hlut við kynslóðaskiptin. Þessi upphæð er svo svimandi há að erfitt er að gera sér grein fyrir henni. Til að setja hlutina í samhengi þá má reikna með að hvert barnanna fái árlega arð sem nemur um 1.300 milljónum króna. Í þessari nálgun hefur verið tekið tillit til erfðafjárskatts. Það þýðir að á hverjum sólarhring fær hvert og eitt barnanna sem nemur 3,5 milljónum króna í arð. Höfuðstólinn haggast ekki. Þau fá 146 þúsund krónur á klukkutímann, allan sólarhringinn. Blessað kvótakerfið sem gerði börnin mín rík, gætu þeir sagt.

Það sem truflar fólkið í landinu er að grunnur alls þessa auðs er fiskurinn í sjónum. Þrátt fyrir að lög segi skýrt að fiskistofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar er reyndin sú að fyrirtæki og einkaaðilar njóta arðs af auðlindinni. Hinn venjulegi Íslendingur sem býr við kjör sem rétt duga til venjulegrar framfærslu botnar ekkert í þessum kjörum hinna útvöldu. Í tilviki Samherjabarnanna þá taka þau til sín árslaun láglaunafólks á hverjum sólarhring. Þegar sérhvert barnanna leggur höfuð á koddann þá halda peningarnir áfram að streyma inn. Eftir átta tíma svefn verða tekjurnar um 900 þúsund krónur.

Samherji á sér upphaf í því að þrír frændur frá Akureyri keyptu togara sem lá í reiðileysi í höfn á Reykjanesi. Þetta var í árdaga kvótakerfisins og skipið hafði sáralítinn kvóta. Einn frændanna, aflaskipstjórinn Þorsteinn Vilhelmsson, tók við skipstjórninni. Hann hafði fiskað heil ósköp á togarann Kaldbak sem leiddi til þess að kvóti skipsins var mikill. Íslenska ríkið ákvað að leyfa honum að afrita kvótann yfir á nýja skipið, Akureyrina. Skipin tvö voru því með jafnan kvóta. Skipstjórakvótinn væri í dag milljarða króna virði. En til þess að öllu sé haldið til haga þá ráku Samherjafrændur fyrirtæki sitt vel og undirbyggðu góðan rekstur. Þorsteinn skipstjóri fiskaði vel og Samherji græddi. Seinna hraktist Þorsteinn Vilhelmsson út úr Samherja vegna deilna við Þorstein Má, frænda sinn.

„Seinna varð Mídas fyrir þeirri ógæfu að fá asnaeyru.“

Hneykslismál hafa undanfarið skekið Samherja. Mútumál í Namibíu hefur sett svartan blett á fyrirtækið og Þorstein Má Baldvinsson framkvæmdastjóra ekki síst. Honum er varla stætt eftir að málið kom upp. Eflaust er þetta ástæðan fyrir því að börn frumherjanna tveggja fá allan þennan auð afhentan og hinir umdeildu víkja nú af sviðinu. En sitt er hvort gæfa eða gjörvileiki. Öldungis er óvíst að kvótinn muni færa börnunum gæfu. Menn skildu hafa hugfasta söguna af Mídasi konungi sem átti sér þá ósk heitasta að eignast sem mest gull. Hann öðlaðist þá ógæfu að allt sem hann snerti varð að gulli. Þegar dóttir hans fagnaði honum við heimkomu og hljóp í fang hans breyttist hún í gull. Seinna varð Mídas fyrir þeirri ógæfu að fá asnaeyru.

Það er eitthvað rangt við það að svo mikill auður einstaklinga geti sprottið af auðlind þjóðarinnar. Auðvitað er ekki við persónur og leikendur að sakast. Samherjafrændur hafa lengst af staðið sig vel í rekstri þótt seinna hafi gefið á bátinn. Þeir nýttu sér þá þjóðargjöf sem Alþingi Íslendinga færði þeim og urðu moldríkir.

Vandinn við gull er hins vegar sá að það blindar gjarnan og elur á græðgi og siðleysi. Mikill vill meira. Nígeríumál Samherja er vísbending um að asnaeyru komi við sögu. Vonandi verða kynslóðaskiptin íslenskri þjóð og ekki síst börnum kvótans til gæfu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -