Síðast en ekki síst
Eftir / Elísabetu Ýri Atladóttur
Karlmaður kom fram í fjölmiðlum og hélt því fram að barnið hans hefði logið upp á hann kynferðisofbeldi. Hann heldur því fram að ásökunin sé tálmunarvopn barnsmóður hans.
Annar karl stofnaði samtök sem kenna sig við jafnrétti foreldra, eftir viðtal þar sem hann sagði dætur sínar ljúga upp á hann andlegu ofbeldi. Aftur, allt eitthvað sem barnsmóðir hans átti að eiga upptökin að.
Systkini sögðu að faðir þeirra hafi beitt þau ofbeldi en var aldrei trúað, og móðir þeirra var máluð sem tálmunarmóðir á opinberum vettvangi fyrir að reyna að vernda þau. Þau fengu ekki uppreist æru fyrr en þau voru nógu gömul til að koma fram sjálf og segja frá. Enginn trúði þeim fyrr, og enn eru sumir sem reyna að mála allt sem heilaþvott frá móður þeirra.
Kennari í áhrifastöðu skrifaði greinar um hvernig vernda þarf kennara, því börn ljúgi svo mikið upp á þá.
Starfsfólk sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu sagði í viðtali nýlega að ekkert væri að ferlum í umgengnis- og forsjármálum hjá því, þrátt fyrir skýr gögn um annað.
Þetta er brot af þeim dæmum sem til eru um hvernig börn eru sögð lygarar af fólkinu sem á að vernda þau. Rauði þráðurinn er að börn séu alltaf að ljúga upp á saklausa menn alls konar ofbeldi, að auðvelt sé að heilaþvo þau.
Fólk fyllist reiði þegar það heyrir af ofbeldi gegn börnum. Fólk vill vernda börn. Allt of stór hluti barna er beittur ofbeldi, oftast af fólkinu sem stendur þeim næst. Kynferðisofbeldi gegn börnum er langoftast framið af föður þeirra. Börn sem eru vitni að ofbeldi föður þeirra gegn móður upplifa það sem ofbeldi gegn þeim sjálfum. Við vitum hversu hryllileg áhrif ofbeldi hefur á börn. Samt er því haldið fram að börn séu alltaf að ljúga um ofbeldi. Af hverju fá þau aldrei að njóta vafans?