Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Dýrkeyptur sparnaður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

SKOÐUN / Eftir Sigurður Hannesson

Á 20. öldinni reis íslenskt samfélag úr fátækt til velmegunar. Með þrautseigju og af framsýni tókst landsmönnum að byggja upp innviði landsins en daglegt líf okkar er óhugsandi án þeirra. Á síðustu árum hefur innviðum landsins ekki verið sinnt sem skyldi, viðhaldi verið ábótavant og nýframkvæmdir skornar við nögl. Afleiðingin blasir við þessa dagana þegar skólabyggingum hefur verið lokað vegna myglu. Þetta hefur reynst dýrkeyptur sparnaður.

Samkvæmt skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gáfu út árið 2017, er uppsöfnuð viðhaldsþörf 372 milljarðar, mest í vegakerfi, fasteignum hins opinbera, flutningskerfi raforku og fráveitum. Virði innviða er nú af svipaðri stærðargráðu og eignir lífeyrissjóða. Virði innviða fyrir samfélagið er þó mun meira en þessar tölur gefa til kynna þar sem innviðir leggja grunn að verðmætasköpun og útflutningstekjum hagkerfisins. Hafnir þarf til að færa sjávarafla að landi, ferðamenn sækja landið heim um flugvelli og ferðast um á vegum landsins. Raforka er framleidd og flutt til að knýja orkusækinn iðnað sem skapar hundruð milljarða útflutningsverðmæti á ári.

Byrgja þarf brunninn

Fasteignir hins opinbera eru mikilvægur þáttur innviða. Fasteignir sveitarfélaga eru að langstærstum hluta skólar og mannvirki sem tengjast íþróttum og tómstundum en einnig eru þar undir félagslegar íbúðir, sérhæft húsnæði fyrir velferðarþjónustu og menningarstofnanir. Endurstofnvirði þessara eigna er metið á 330 milljarða.

Í innviðaskýrslunni kemur fram að sparnaðaraðgerðir fyrri ára kalli á aukna viðhaldsþörf nú og næstu ár. Á undanförnum árum þegar skera þurfti útgjöld niður fóru sveitarfélög þá leið að fresta viðhaldsframkvæmdum þannig að uppsöfnuð viðhaldsþörf var metin á um 20 milljarða í skýrslunni. Fyrir um tveimur árum síðan bárust fréttir af því að Kársnesskóla yrði lokað vegna myglu. Síðar var ákveðið að rífa bygginguna sökum skemmda. Nú hefur Fossvogsskóla verið lokað fram á haust af sömu sökum og hefur skólahald verið flutt á annan stað. Fregnir herma að sama vandamál sé fyrir hendi í þremur öðrum skólum í Reykjavík en of snemmt er að segja til um afleiðingar þess. Mygla hefur komið upp í Grunnskólanum á Ísafirði og þarf að öllum líkindum að loka heilli álmu. Fyrir utan fjárhagslegt tjón fylgir því talsvert rask að flytja skólastarf og er óþægilegt fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk.

- Auglýsing -

Í innviðaskýrslunni fá fasteignir hins opinbera ástandseinkunnina 3 af 5 sem þýðir að mannvirkið er viðunandi en staða þess er ekki góð. Búast má við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þess. Nauðsynlegt verður að leggja í fjárfestingar til framtíðar litið. Langtímahorfur benda til þess að staða mála verði óbreytt að áratug liðnum nema verulega verði bætt í viðhald. Sú staða er óviðunandi og verða sveitarfélög að gera betur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -