Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ég geri allt og þú ekki neitt – Algengt umkvörtunarefni hjá pörum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Íris Eik Ólafsdóttir, réttarfélagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sáttamiðlari hjá Samskiptastöðinni

Þau eru mörg verkefnin sem inna þarf af hendi á hverju heimili auk þess sem hver og einn hefur yfirleitt mikið á sinni könnu utan veggja heimilisins. Algengt umkvörtunarefni para eða hjóna er upplifun á ójafnri verkaskiptingu á heimilinu. Annar aðilinn upplifir sig gera margt, jafnvel allt, og hinn sé ekki að taka eins mikinn þátt. Algengt er að parið upplifi stöðu sína á afar mismunandi hátt.

Dæmi um þetta getur verið að á meðan öðrum aðilanum finnist hann þurfa að sjá um allt upplifir hinn að það sé alveg sama hvað hann geri, það sé aldrei nógu gott. Algeng viðbrögð eru að draga sig í hlé þegar væntingar makans til verkaskiptingar eru ekki skýrar. Á sama tíma eykst kergjan hjá makanum og hann sýnir enn meiri reiði og pirring. Krefjandi vítahringur er kominn í samskipti parsins og oft á fólk erfitt með að finna leiðina út úr honum. Þetta myndar samskiptavanda og gjá í parsambandið sem skilur eftir sig erfiðar tilfinningar þar sem fólk getur upplifað einsemd, vonleysi, vanmátt, skilningsleysi, skort á virðingu og nánd.

Það er gagnlegt fyrir öll pör að setjast niður reglulega og fara yfir stöðuna á praktískum málum, s.s. eins og hver á að skutla og sækja börnin, hver ætli að sjá um eldamennsku, þrif og þvotta, slá grasið, þvo bílinn, greiða reikninga, sjá um viðhald, hvernig lítur vinnuvikan út, minna á viðburði í komandi viku s.s. æfingar, saumaklúbb og hittinga eftir vinnu.

Einnig er gott að ræða líðan hverju sinni og ef viðkomandi hefur upplifað eitthvað ósanngjarnt í vikunni að ræða það á þessum fundum. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir pör sem glíma við samskiptavanda af einhverju tagi. Þessir fundir eru stundum kallaðir „hjónafundir”. Þeir geta minnkað árekstra og þjálfað upp betra samtal á milli parsins. Þá er hægt að geyma umræðuefni sem geta verið eldfim í stað þess að skella þeim á borðið, í tíma og ótíma.

Meiri líkur eru á árangursríku samtali þegar báðir aðilar hafa tekið frá tíma og eru undir það búnir. Því skaltu núna ræða við maka þinn um hvort svona vikulegir fundir gætu gagnast ykkur til að minnka álag og bæta samskipti ásamt því hvenær í vikunni ykkur hentar að festa tíma til að ræða ykkar mál, bæði praktísk og persónuleg.

- Auglýsing -

Gangi ykkur vel!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -