Höfundur: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs
Ég fór með vinkonum mínum að sjá leikritið Bíddu bara í Hafnarfjarðarleikhúsinu í vikunni. Þar veltumst við um af hlátri og heyrðum enduróm áratuganna af okkur sjálfum að segja þetta hver við aðra og öðru fólki að segja þetta við okkur.
Eftir sýninguna var ég hugsi. Getur verið að þessi setning, „bíddu bara“, elti okkur í gegnum lífið og sé til þess gerð að hræða okkur, letja til breytinga og skapa mögulegan landlægan kvíða?
Mér finnst breytingar og óvissa skemmtileg. Í þeim felst áskorun um að þurfa að mæta einhverju sem ég þekki ekki. Þurfa að hugsa um hvaða viðbragð sé best, gera áætlun og mögulega taka smá dans í kringum hlutina til að ná árangri. Oft tekst það, en stundum ekki og þá tekur maður bara skref aftur á bak, til hliðar og byrjar aftur. Það er baráttu-Breiðhyltingur í mér sem er erfitt er að hemja stundum.
Aldrei hætta að læra
Ég lærði snemma af mér eldra fólki að hætta aldrei að læra. Setningar eins og „Unga kona, mundu bara að vera alltaf að læra og laga þig að nýrri tækni, því annars verður þú eftirbátur“ óma í minninu. Oft fylgdi þessu „Bíddu bara þangað til þú ert orðin eldri, þá skilurðu um hvað ég er að tala“. Ég ákvað því ung að bíða ekki, heldur skella mér í stöðugar breytingar og endalausan, skemmtilegan lærdóm.
Að skipta um starfsvettvang er eitt af þessum markmiðum sem hafa fylgt mér í gegnum lífið. Á ca 10 ára fresti hef ég fært mig um stað og skipt alfarið um starfsumhverfi og atvinnu. Ég byrjaði ung í ferðaþjónustu og fjölmiðlum, fór svo í velferðarþjónustu og háskólakennslu, varð fyrirtækjaeigandi og stjórnandi alþjóðlegs fyrirtækis í tveimur löndum, aftur smá í fjölmiðla og er nú í pólitík.
Mikilvægt að taka sjálf ákvörðun um breytingar
Að vera stöðugt að læra og breyta er það ráð sem ég er hvað þakklátust fyrir. Með árunum sé ég hvað breytingar, sem oft geta verið erfiðar, eru hollar. Ekki síður hvað það er mikilvægt að geta tekið ákvörðun um það sjálf að breyta en láta ekki þröngva sér út í horn og láta þannig aðra taka ákvarðanir um breytingar fyrir sig. Kannski var Hallgerður langbrók fyrsti umbreytingarsinninn þegar hún sagði „eigi vil ég hornkerling vera“ og meinti að hún vildi ekki láta þvinga sig í ákvarðanir sem hún vildi ekki taka?
Eftir sit ég hugsandi um leikritið. Er ekki bara best að hætta að hræðast „Bíddu bara“ og nota andstæðuna þess í stað. Við getum í staðinn innleitt í alla okkar hugsun setninguna „Ég get ekki beðið“. Í henni felst spenna og eftirvænting sem passar okkur vel.
Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan: