Mánudagur 13. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Ein lykkja í einu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

Eftir / Steinunni Stefánsdóttur

Ég prjóna. Og við sem prjónum eigum með okkur einhvers konar leynifélag. Það er svolítið eins og að finna óvænt ættartengsl þegar maður kemst að því að kona, því það er næstum alltaf kona, prjónar líka.

Prjónakona sem ég vann einu sinni með kynnti mér þá kenningu að skipta mætti prjónurum í tvennt. Annars vegar eru prjónarar sem prjóna vegna ferlisins sjálfs, það er sú sem nýtur hverrar lykkju og fyllist jafnvel söknuði þegar verkefninu er lokið. Hins vegar eru prjónarar sem einblína á afurðina og njóta fyrir bragðið kannski ekki eins hverrar lykkju sem þær prjóna. Ég fell afdráttarlaust í síðari flokkinn.

Að þessu kvað rammt, sérstaklega á árum áður. Eitt árið prjónaði ég til dæmis peysur á mig og dætur mínar þrjár. Fallegar peysur og hver dóttir fékk að velja bæði snið og liti. Engin af þessum peysum varð hins vegar almennilega nothæf vegna þess að þær náðu okkur ekki nema niður að nafla. Óþreyjan eftir afurðinni gerði að verkum að ég prjónaði ekki nógu hátt upp áður en ég fór að vinna með ermarnar.

Á þessum árum var ég reyndar í nokkurs konar fíkilsambandi við prjónana. Annaðhvort prjónaði ég alls ekki eða þá að ég prjónaði þannig að ég sat með prjónana í fínum veislum og svo tóku þeir frá mér svefn. Ég gat nefnilega alls ekki hætt á kvöldin, sat í sófanum kvöld eftir kvöld og tók aftur og aftur ákvörðun um að prjóna bara eina umferð í viðbót. Þangað til klukkan var orðin tvö eða þrjú eða jafnvel meira.

Ég hef ekki náð þeim stað að verða ferilprjónari en seinni ár hef ég náð betra jafnvægi í sambandi mínu við prjónana og hefur að mestu tekist að eyðileggja ekki verkefnin mín með óþolinmæði. Ég get líka látið prjónana liggja kvöld og kvöld og læt prjónaskapinn ekki ræna mig svefni, nema kannski stundum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -