Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Einföld hollusta – ekkert vesen

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 1. tölublaði Gestgjafans

Eins og venja er á þessum árstíma þá er hollustan í hávegum höfð hjá Íslendingum og nú keppast allir við að ná „jólalögunum“ af sér. Mataræðið er lykilatriði þegar kemur að hollustu þó svo að hreyfing sé einnig mikilvæg, í raun þarf þetta tvennt að fara saman. Stundum hefur það pirrað mig að fólk setji samasemmerki á milli líkamsþyngdar og góðrar heilsu því grannur einstaklingur getur verið í mjög lélegu formi og öfugt. Allir sem eitthvað hafa lesið um heilsu og næringu vita að kúrar og skyndilausnir virka ekki til lengri tíma og það hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á en þrátt fyrir það eru skyndilausnir enn vinsælar. Sumir matarkúrar og lífsstílskúrar eru umdeildir meðal næringarfræðinga og lækna og enn á eftir að gera vísindalegar langtímarannsóknir á mörgum þeirra. Eflaust er þetta ein af ástæðunum fyrir því að fólk er svolítið ruglað og ákveðinnar tortryggni gætir gagnvart sumu mataræði og fólk fer oft í fylkingar svo stundum minnir umræðan á trúarbrögð.

Markaðsöflin slá oft ryki í augun á fólki og því miður láta margir blekkjast af sölufyrirsögnum á umbúðum, áróðri og jafnvel kvikmyndir og myndbönd á Netinu hafa verið notuð til að selja vörur og kúra. En er ekki eitthvað bogið við að orkustykki eigi að koma í stað heillar máltíðar og orkudrykkur að veita manni svo mikla orku að lítið þarf að borða. Orð eins og náttúrulegt, glútenlaust, hollusta, vegan, laktósafrítt og hreint fæði eru notuð í markaðstilgangi og fólki talið trú um að þá sé varan hollari. Glútenlaust brauð er ekkert hollara en brauð með glúteni, sem er prótín, því oft eru sett önnur aukefni í brauðið sem eru ekkert endilega holl. Vörumerkingarnar eru góðar fyrir fólk með celiac-sjúkdóminn, ofnæmi og óþol. Veganvörur eru ekki allar hollar en algengt er að sjá vörur með veganstimpli í hillum verslana, jafnvel eitthvað sem hefur og verður alltaf vegan eins og avókadó og kartöflur. Sumir veganistar borða mjög hollt og aðrir borða óhollt, sykur er til dæmis vegan. Ég rakst nýverið á hafragraut úti í búð sem á stóð, „borðaðu hreint og vertu í formi, fljótleg máltíð“. En það var ekkert sérstaklega hreint við akkúrat þennan hafragraut því í honum voru einungis 75,3% hafrar og restin var mjólk í duftformi, kókósmjöl, vanillusykur, sykur, loftþurrkuð jarðarber og þurrkaðir rófubitar og þetta hefur örugglega ekki verið nema eitt lítið jarðarber því það var einungis 1,5% af 100 g og rófumagnið ekki tekið fram, kannski ekki mælanlegt. Hver setur sykur í hafragraut? Það tekur ekki nema 5 mínútur að gera góðan hafragraut og í hann þarf hafra, vatn og salt og svo má setja ber út á.

Hollur matur þarf ekki að vera flókinn og á ekki að vera það, mottóið okkar á Gestgjafanum er einföld hollusta, ekkert vesen og bara góður matur eldaður frá grunni. Einfaldleikinn er oft bestur og matur eins og glæný soðin ýsa með kartöflum og smjöri getur verið algert lostæti en í raun er hollustan helst fólgin í fjölbreytileikanum. Hráefni eins og baunir, fiskur, grænmeti, salat, hnetur, fræ, ávextir og kjöt í hófi ættu að vera á diskum okkar í hverri viku. Ég mæli svo eindregið með því að fólk geri hafragrautinn sjálft en í blaðinu eru einmitt sniðugar og einfaldar uppskriftir að hafragraut og það er sannarlega hrein fæða. Michael Pollan hefur mikið skrifað um mat og hollustu og verið afar gagnrýninn á margt í matarheimi nútímamannsins. Í bókinni Food Rules fer hann yfir ýmislegt áhugavert og segir meðal annars: „Borðaðu ekkert sem amma þín myndi ekki vita hvað er.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -