Höfundur / Kjartan Sigurðsson
Þegar hagkerfið gengur vel er mikilvægt fyrir fyrirtæki að láta vita af sér en þegar hagkerfið gengur illa er það hins vegar nauðsynlegt. Kannanir sýna að fleiri eru að hlusta á útvarp, horfa á sjónvarp og vafra um samfélagsmiðlana þessa dagana sem getur gert fyrirtækjum auðveldara fyrir að ná til viðskiptavina.
En af hverju ættu fyrirtæki að auglýsa vöruna sína eða þjónustu núna þegar þau eru lokuð eða bundin takmörkunum á þjónustu? Þótt að fyrirtæki sé lokað þýðir það ekki að það geti ekki markaðssett vörumerki, selt vörur eða átt í samskiptum við neytendur.
Aukin einkaneysla er nauðsynleg viðspyrna fyrir hagkerfið til þess að komast upp úr núverandi samdrætti. Við trúum því flest að storminn lægi. Stjórnvöld ætla að gefa út ferðaávísanir sem hvetja eiga til aukinnar innanlandsneyslu og búast má við því að samtök í atvinnulífinu hleypi af stokkunum herferðum þar sem landsmenn verða hvattir áfram til dáða. Hver eru þá rétt viðbrögð fyrirtækja í stöðunni?
Fyrirtæki verða að hafa trú á framtíðinni. Trú á framtíð viðskiptavina sinna. Sumir gætu þurft að hagræða hjá sér tímabundið og einhver fyrirtækja þurfa að grípa til uppsagna en fyrirtæki mega ekki segja upp viðskiptavinum!
Borið hefur á því að fyrstu viðbrögð fyrirtækja séu að stíga fast á bremsuna. Sumar heildsölur og þjónustufyrirtæki hafa dregið úr greiðslufresti til viðskiptavina og jafnvel óskað eftir fyrirframgreiðslu í fyrsta sinn í mörg ár. Önnur fyrirtæki hafa óskað eftir því að fá að skila vörum til birgja og á þetta jafnvel við um fyrirtæki sem munu hagnast á ástandinu. Það er ekki er ólíklegt að netverslanir og fjarskiptafyrirtæki, sem upplifa aukna net- og símanotkun, muni einmitt græða á því að fólk er meira heima hjá sér.
Af hverju eru viðbrögðin þá að stíga á bremsuna? Líklega spilar reynslan af bankahruninu inn í en mögulega líka sú staðreynd að fæstir lærðu í hagfræði skyndihjálp við samhliða falli á eftirspurn og framboði.
Það er kannski ekki rétti tíminn núna að stíga bensínið í botn en í stað þess að bremsa er mögulega betra að kúpla og reka fyrirtæki í hlutlausum gír um stundarsakir. Ef allir bremsa er hætta á því að spírallinn í hagkerfinu verði neikvæður sem gætið komið í veg fyrir kraftmikla viðspyrnu þegar birtir aftur til.