Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Eldhúsminningarnar þær allra bestu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari út 10. tölublaði Húsa og híbýla

Hjartað í hverju húsi er án efa eldhúsið enda er það einn aðalsamkomustaður fjölskyldunnar. Þar er eldað, bakað, borðað, drukkið, hlegið, masað, slúðrað, lesið, lært, rifist, grátið, vafrað, spilað, föndrað, litað, leirað, fægjað, málað og farið á trúnó svo fátt eitt sé nefnt.

Eflaust eiga margir góðar minningar sem tengjast eldhúsi eða eldhúsborðsumræðum. Ég man til dæmis vel eftir því þegar við mamma lögðum undir okkur eldhúsið með greinum, mosa, jólakúlum og kertum til að búa til aðventuskreytingar og einnig minnist ég þess vel þegar tekið var slátur í eldhúsinu hjá ömmu og allir sátu og saumuðu keppi af kappi, það var gaman þótt lyktin af kindainnyflum hafi kannski ekki verið eins spennandi og samræðurnar. Ég myndi gefa mikið til að fá að upplifa þó ekki væri nema svolítil augnablik af eldhúsumræðunum úr minni æsku.

Æskueldhúsið mitt var í stílnum sem var allsráðandi á 8. áratugnum, hvítir og brúnir skápar, brúnn dúkur á gólfinu með upphleyptu mynstri og korkur með rauðri marmaraáferð á einum veggnum. Eldhúsborðið var kringlótt og hvert okkar átti sitt fasta sæti og það var eins og að keyra á vitlausri akrein að setjast í annarra manna sæti, þá rifumst við systkinin heiftarlega. En við hlógum líka stundum svo mikið að drykkirnir frussuðust út um nefið sem var mjög fyndið og þá hlógum við enn meira svo máltíðirnar drógust margar á langinn og urðu að frábærum samverustundum.

„En við hlógum líka stundum svo mikið að drykkirnir frussuðust út um nefið…“

Þegar við stórfjölskyldan hittumst í dag finnst öllum skemmtilegast þegar setið er í eldhúsinu, þá ganga brandararnir á víxl og hlátursköst þar sem við getum ekki horft hvert á annað eru enn nokkuð algeng. Já eldhúspartíin eru best! Öll eldhúspartí enda samt ekkert endilega vel en einu sinni var pabbi orðinn eitthvað svangur í slíku teiti og ákvað að sjóða sér nokkur egg, sem er ekki í frásögur færandi nema af því að hann hélt áfram að spjalla og hafa gaman þangað til eggin splundruðust með óhemju látum og subbugangi, eftir því, en samt var hlegið.

Í gamla daga var algengt að eldhúsin væru í sérrými sem hægt var að loka en eins og margir vita þá hefur færst í vöxt og verið vinsælt undanfarin ár að hafa eldhúsin í opnu rými. Fólk skiptist svolítið í tvo hópa með hvort sé betra. Rökin fyrir lokuðu eldhúsi eru nokkur, því þá er t.d. hægt að vera í rólegheitum í eldhúsinu án þess að trufla fólk í öðrum rýmum og það er líka kostur að geta lokað eldhúsinu þegar verið er að steikja, nú og svo er afar þægilegt að geta lokað eldhúsinu á eftir sér þegar gesti ber að garði svo draslið í eldhúsinu sjáist ekki.

- Auglýsing -

Kostirnir við opin eldhús eru hins vegar að þá verður eldhúsið hluti af stofunni eða borðstofunni, slík eldhús eru oft rýmri og þá getur kokkurinn spjallað við þann sem er t.d. í stofunni.

Í nýjasta blaði Húsa og híbýla lögðum við sérstaka áherslu á hjartað í húsinu, eldhúsið, en einnig eru afar spennandi og falleg innlit sem allir fagurkerar geta notið. En hvað sem öllum rýmum líður þá hljótum við öll sem eitt að vera sammála um að bestu partíin eru eldhúspartíin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -