Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Enginn gerði aldrei neitt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 11 tölublaði Gestgjafans 2020

Bráðum koma blessuð jólin eins og þau hafa gert frá örófi alda þótt hátíðahöldin sjálf hafi vissulega breyst og þróast í tímans rás. Þetta ár held ég að þau verði kærkomnari en oft áður enda gaman að geta hlakkað til einhvers á þessum tímum. Aðventan
verður að öllum líkindum með breyttu sniði vegna faraldursins og einhverjir eiga eflaust eftir að sakna allra jólatónleikanna, hlaðborðanna og vinnustaðafögnuðanna. Þess vegna er mikilvægt að reyna að finna leiðir til að njóta alls þess sem þó má og það er hellingur. Það
bannar til dæmis enginn neinum að jólaskreyta yfir sig eða að baka tíu sortir af smákökum og föndra með börnunum. Svo má líka spila jólalög, gera aðventukransa og höggva eins og eitt jólatré, samt ekki hjá nágrannanum. Það má líka drekka kakó og skrifa á jólakort sem verða kannski aldrei send og gleymast í hanskahólfinu á bílnum, hefur samt ekki komið fyrir mig og þó …

Í seinni tíð hef ég reynt að minnka jólastressið eins og kostur en ég var þjökuð af jólafullkomnunaráráttu þegar ég fór að búa enda alin upp á heimili þar sem jólin voru sko ekkert grín, þau voru heilög og tekin alvarlega. Undirbúningurinn hófst í lok september með því að tekið var til í öllum skápum og skúffum. Þegar komið var fram í nóvember var eldhúsinnréttingin þvegin hátt og lágt, ísskápurinn affrystur, rykið slegið úr öllum bókum og
gardínum skellt í vél og já, settar nýjar fúgur á flísarnar á baðinu. Ég fæ hálfgert kvíðakast við það eitt að rifja þetta upp og ég er ekki byrjuð að nefna allt sem gert var í desember. Erfiðast fannst mér að pússa silfrið, þá voru ekki notaðar neinar töfraaðferðir sem finnast á Google og ef þær hefðu verið til þá er ég nokkuð viss um að mamma hefði ekki gefið neinn afslátt. Hún lét okkur systkinin nota alvörufægilög og tannbursta til að tryggja að allir fletir
væru fægðir og myndu glansa enda með öllu óhugsandi að einhver borðaði jólamatinn með hnífapörum þar sem svo mikið sem ein felling í mynstrinu væri með gráma. En þetta var samt notaleg stund og mikið spjallað meðan á herlegheitunum stóð.

Skemmtilegast fannst mér alltaf þegar við skreyttum húsið og smáköku- og lagkökubaksturinn hófst, það var útgerð í lagi. Heilu dunkunum af smákökum var staflað í geymsluna löngu fyrir jól og lagkökurnar frystar en iðulega kom það fyrir að boxin væru hálftóm þegar loksins mátti borða kökurnar og það skrítna var að það kannaðist enginn á heimilinu við að hafa tekið neitt. Þannig varð til nýr fjölskyldumeðlimur sem kallaður var „Enginn“ alveg hreint ótrúlegt hvað hann gat verið pirrandi, alltaf að stela góðgæti og valda usla. Furðulegt samt hvað svipurinn á okkur krökkunum varð aumingjalegur þegar pabbi
skammaði Engan. Þessi fjölskyldumeðlimur kemur enn í jólaboðin og hann á það til að klára alla bleiku molana í Macintosh-dollunni og svo er hann orðinn voða mikið fyrir jólabjór líka. En þrátt fyrir það er mikið hlegið og gantast í jólaboðunum og enginn að flýta sér, það er svo notalegt. Kannski ætti það einmitt að vera aðalinntak jólanna í ár, hver þarf svo sem að flýta sér árið 2020? Enginn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -