Höfundur / Helga Baldvins Bjargardóttir
Á sólríkum degi í sumar eftir yndislega sundferð með börnunum mínum var stefnan tekin á pylsuvagninn góða í Laugardalnum. Við settumst á bekk með pylsur og svala og fyrir aftan okkur settist svört móðir með börnin sín í sömu erindagjörðum. Þegar ég hélt að ekkert gæti raskað sæluvímu sundferðarinnar verður mér allt í einu litið á dóttur mína sem situr andspænis hinni fjölskyldunni og hermir eftir górillu. Hjartað tekur kipp og þúsund hugsanir þjóta í gegnum huga mér á örfáum sekúndum. Milli samanbitinna tannanna og ögn hvassara en ég ætlaði mér spyr ég hana hvað hún sé að gera, hvort hún sé að leika górillu og bið hana að gjöra svo vel að hætta þessu eins og skot.
Var þetta viljandi eða óvart? Hvar hefur hún séð þetta gert? Það eru svört börn í skólanum hennar, er þetta eitthvað sem líðst þar? Er barnið mitt rasisti? Hefur mér gjörsamlega mistekist í uppeldinu? Hugsaði ég með hjartað í buxunum og vonaði svo heitt og innilega að fjölskyldan fyrir aftan okkur hefði ekki séð til hennar.
„Hefur mér gjörsamlega mistekist í uppeldinu?“
Dóttur minni er augljóslega brugðið yfir viðbrögðum mínum, horfir á mig saklausum undrunaraugum og spyr hvers vegna. Ég reyni að róa mig og læt hana vita að ég skuli útskýra það á eftir. Síðustu pylsubitana reyni ég að hugsa hvernig maður útskýri eiginlega rasisma fyrir 6 ára barni. Ég hef ekki hugmynd, en ég veit að ég verð að reyna. Þegar við erum komin í átt að bílnum tek ég utan um axlir hennar, sest á hækjum mér og horfi í þessi fagurbláu augu og segi „ég veit ekki hvort þetta var viljandi eða óvart, en fólk með hvítan húðlit, eins og við, hefur mjög oft komið mjög illa fram við fólk með svartan og brúnan húðlit og eitt það ljótasta sem fólk með hvítan húðlit gerir er að líkja þeim við apa eða górillur“.
Ég sé tárin brjótast fram í augum dóttur minnar um leið og hún útskýrir að þetta hafi hún ekki vitað. Ég svara henni með þeim orðum að ég viti að hún meinti ekkert illt og að núna þegar hún viti þetta þá sé ég fullviss um að hún muni aldrei gera þetta aftur. Hún tekur undir það og við föðmumst innilega.
Gerði ég rétt í þessum aðstæðum? Ég veit það ekki. Það eina sem ég veit er að verð að gera eitthvað. Ég ber ábyrgð á að koma þremur börnum á legg, kenna þeim hvað er rétt og rangt og leggja þeim lífsreglurnar. Að allir eigi rétt á virðingu fyrir sinni mannlegu reisn en kvenfyrirlitning, kynþáttahyggja, fötlunarfyrirlitning, hinseginfóbía, fitufordómar og önnur hugmyndakerfi niðurlægingar og ofbeldis séu alltumlykjandi í okkar samfélagi. Að hlutleysi sé afstaða sem styðji þessi valdakerfi og sem borgarar þurfum við að taka meðvitaða afstöðu gegn þeim til að stuðla að jafnrétti, mannréttindum og samfélagi þar sem allir geti blómstrað á eigin forsendum.
Sem foreldri er erfiðasta lexían þó sú að börnin mín gera eins og ég geri, ekki eins og ég segi. Svo umfram allt þarf ég að vera fyrirmynd.
Þegar ég var við það að örvænta yfir skort á fræðslu um uppeldi gegn rasisma var ég svo heppin að fá þessa sendingu í pósthólfið mitt svo ég skráði mig á námskeið: