Davíð Már Sigurðsson skrifar
Ég er af þeirri kynslóð sem fór í gegnum grunnskóla á meðan það sem núna kallast
skólaíþróttir, bar nafnið leikfimi. Ég man líka hvað mér fannst þessi nafnabreyting einstaklega fáránleg þegar hún gekk í gegn. Örugglega bara mínir fordómar en þegar ég heyrði orðið hljómaði það illa. Íþróttir og skólaíþróttir. Eins og þetta sé einhver lélegri útgáfa af alvöru íþróttum. Við tölum aldrei um skólastærðfræði eða skólamyndment. Er það virkilega faginu til sóma að skella forskeytinu skóli fyrir framan íþróttir. Það skekkir líka væntingar nemanda og foreldra um hvað fagið snýst. Að SKÓLA íþróttir séu einungis til að kynna hefðbundnar íþróttir fyrir nemendum sem þeir vonandi finna sig í og fara að æfa utan skóla. Því er ég hjartanlega ósammála. Grunnskólinn er ekki verksmiðja fyrir skipulagt íþróttastarf. Því þar er iðkandinn á allt öðrum forsendum. Iðkandinn hefur þar val um hvort hann mætir eða ekki. Hann hefur líka yfirleitt valið íþrótt sem hann hefur sérstaklega áhuga á. Það er á allt öðrum grundvelli heldur en í skólaíþróttum. Þar er skyldumæting og því snýst starfið fyrst og fremst um að skapa jákvæða upplifun af hreyfingu, þá helst til frambúðar. Í öðru lagi er byggt á þeirri forsendu að kennslan efli fimi, grunnhreifi- og félagsfærni. Til þess notum við leiki af öllu tagi. Til að skapa fimi. Því tel ég að nafnabreytingin hafa verið mistök. Leikfimi lýsir einfaldlega margfalt betur hvernig kennslustundir fara fram og hvað er verið að læra. Kallar sig einhver skólaíþróttakennara.
Nei held nú ekki.
Forskeytinu er ávallt sleppt og verður þá íþróttakennari. Þá finnst mér leikfimikennari hljómar betur.
Höfundur er Leikfimikennari