Miðvikudagur 11. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Fíllinn í stofunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 9 tbl. Húsa og híbýla 2020

Eins og flestir lesendur Húsa og híbýla hafa tekið eftir þá hefur landsbyggðin verið nokkuð sýnileg í blöðunum okkar í sumar sem hefur fallið í góðan jarðveg. Íslendingar hafa verið á faraldsfæti innanlands og hvar sem ég hef komið eru þeir í meirihluta, hvort sem það er á fjallstindum í Þórsmörk, upp við fossa eða á kaffihúsunum á Akureyri. Þetta eru svo sem engar fréttir því margir hafa verið duglegir að setja myndir á samfélagsmiðla, svo duglegir að sumum finnst nóg um. Ég heyrði sögu af konu einni sem skrifaði nýlega á Facebook að sér fyndist hún búin að vera að ferðast um Ísland í allt sumar, Reynisfjöru, Skógarfoss, Jökulsárlón, Mývatn, Ásbyrgi og Stuðlagil, en svo bætti hún við að hún væri samt ekki byrjuð í sumarfríi, já sitt sýnist hverjum en eitt er víst að margir Íslendingar eru að uppgötva landið sitt, sumir upp á nýtt en aðrir í fyrsta sinn, við getum svo deilt um magn mynda sem fólk setur á samfélagsmiðla.

Eitt af því sem ég hef verið að uppgötva sjálf hér á landi er hversu mörg hótel hafa risið, sum sem ég hafði ekki hugmynd um þótt ég fylgist mjög vel með og sé alger hótelnörd. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að ég sé með hálfgert hótelblæti enda fæ ég fiðring í magann þegar ég kem inn í flotta hótelmóttöku og tilfinningin þegar trítlað er inn vel ilmandi hótelganginn er algerlega einstök að ég tali nú ekki um þegar maður kemur á hótelherbergið eftir að hafa verið einhvers staðar úti að leika sér og það er búið að taka til og búa um. En þetta hótelblæti mitt þýðir samt ekki að ég sé endilega ánægð með allt, ég get nefnilega verið mjög gagnrýnin, samt á jákvæðan máta. Stundum segir maðurinn minn að ég ætti að vinna við að gagnrýna hótel áður en þau eru opnuð en það er önnur saga. Um daginn var ég á hóteli sem var mjög smart, allt í nýjustu tísku, dökkt herbergi, vínilplötuspilari, sniðugar lausnir á mörgum praktískum atriðum og mjög töff lýsing en svo var það baðherbergið … Það var agalegt, lítill klefi í horninu á herberginu, með filmuðum glerhurðum og klósettið og sturtan voru nánast hvort ofan í öðru og vaskurinn frammi. Þegar farið var í sturtuna fór allt á flot, klósettið blotnaði og vatnið flæddi út um allt. Hvergi hafði verið hugsað fyrir því að gera hillu til að leggja frá sér hluti eins og sjampó, ja nema á klósettsetuna, sjarmerandi. Ég þarf svo ekkert að ræða hversu hljóðbært var þegar einhver þurfti að gera eitthvað annað en að fara í sturtu inni á þessu litla baðherbergi. Mitt hjónaband er enn á það rómantísku stigi að við hjónin förum ekki saman á klósettið og við lokum alltaf að okkur. Þessi skrítna baðherbergishönnun var eiginlega eins og fíll í stofunni.

En opin baðherbergi á hótelherbergjum hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarin misseri víða um heim og þykja eflaust töff og þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í svipuðum aðstæðum. Hvað er gott við hönnun sem er bara töff en virkar ekki eða í það minnsta illa? En kannski finnst sumum frábært að makinn eða herbergisfélaginn heyri allt sem fer fram á klósettinu og þá verðum við bara að vera sammála um að vera ósammála. Eitt er víst að ég kýs gamla mátann þegar kemur að baðherbergjum, gamalt er gott. Í þessu blaði höldum við okkur því við fortíðarþrána og bjóðum upp á dásamleg innlit í fjögur ofurfalleg en ólík hús á Vestfjörðum.

Sjá einnig: Forsíðuinnlitið ævintýri líkast

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -