Höfundur / Tobba Marinósdóttir
Ég er á þriðja degi án sturtu, svaf í 4,5 klst., það er risa mjólkurpollur á gólfinu, brotið hreindýr og barnaföt með mjög óæskilegum blettum í baðkarinu, sem ég setti í bala og ætlaði að skola en kveikti á vitlausum krana og fékk nokkra lítra af ísköldu vatni yfir mig.
Þessi vika hefur sumsé verið sannkallaður skítastormur. Ekki misskilja (hér kemur smá disclaimer svo ég verði ekki aflífuð, en í raun ætti mér að vera alveg sama, en mér er það greinilega ekki); ég elska börnin mín, er í forréttindastöðu með frábæra fjölskyldu og vinkonur sem hlaupa stanslaust undir bagga með okkur og þótt maðurinn minn sé á við herdeild og eldri dóttir mín sé almennt slök þá koma dagar sem kona bugast. Algjörlega.
Það má.
Ég er buguð.
Það er erfitt að horfa upp á barnið sitt sárlasið viku eftir viku, hún sefur ekki, ég sef ekki og svo er ég að stofna fyrirtæki, sem þýðir byggingarfulltrúar, heilbrigðiseftirlit og allskonar sexí reglugerðir. Hrikalega afslappandi og lekkert eitthvað.
En af hverju er ég að tuða þetta?
Jú það sem sturlar mig er óeinlægnin sem liggur eins mengun yfir allt og öllu. Ég fær hreinlega hárlos við að fylgjast með þessu kjaftæði. Þetta er svo sem ekkert nýtt. Þegar amma var ung var þetta hún Sigga í næsta stigagangi sem var með hæsta hárið og það var aldrei neitt að. Allt svo frábært. ALLTAF. Líka þegar maðurinn hennar flutti inn í búðina á móti henni með nágrannakonunni. “Allt gott að frétta bara!”
Með samfélagsmiðlum er Sigga í næsta stigagangi stanslaust í andlitinu á öllum. Ég hef sjálf verið Sigga. Á mínu lægsta tímabili í lífinu, erfiðasta tímapunkti lífs mín fór ég að baka óstjórnlega. Stanslaust. Því verr sem mér leið því hærra varð smjörkremið á helvítis bollakökunum, meira skraut og fleiri tegundir. Fersk blóm á toppinn!
Ég held að það hafi snúist um stjórn. Ég hafði ekki stjórn á vanlíðan minni og hver dagur var skelfing. Að baka var lítið afmarkað verkefni sem hafði upphaf og endi, kom vel út og veitti stundar hugarró frá veruleikanum sem var of sár til að takast á við.
Ég velti því fyrir mér hvort það að gefa sjálflýsandi glansmynd af lífi sínu sé ekki öllum til ama, þó manni sjálfum mest. Einlægni hlýtur að vera rétta leiðin til betra lífs. Er ekki betra að sjá alvöru manneskju? Þó það sé ekki alltaf skemmtilegt eða þægilegt þá er stór hluti af því að vera manneskja að tengjast öðru fólki. Virkilega tengjast. Að sjálfsögðu ekki öllum og það þurfa ekki allir að vita allt um alla. En ef fólk er að gefa kost á innsýn í líf sitt til dæmis á samfélagsmiðlum væri fallegt að taka augnhárin niður einu sinni á ári og sýna smá einlægni. Það er aldrei allt æði alltaf!
Að horfa á slíka glansmynd gerir áhorfendum lítið annað til lengdar en að fylla þá vonleysi og óhamingju með eigin frammistöðu. Ég tala nú ekki um þegar fyrirtæki eru að ausa peningum í óeinlægni og ýta undir sýnileika þess sem getur aldrei staðist væntingar. Já, lengdu augnhárin, mjókkaðu mittið og settu meira krem á bollakökuna og við sponsum þig!
Ég er með háskólagráðu í fjölmiðlafræði með áherslu á almannatengsl. Ég hugsa því oft út frá almenningsáliti hvort eitt eða annað sem kemst í fjölmiðla hefði ekki farið betur ef einlægni hefði átt meira upp á pallborðið. Nærtækt dæmi er þegar tveir þekktir stjórnmálamenn tókust á hér um árið. Annar yppti öxlum og sagði „Sorry með mig, á ég kannski að bara að fara?” Þá snerist fólk á punktinum: „Ó nei, ekki hætta!” Hin týpan stóð keik og sagðist ekki hafa gert neitt rangt. Henni var bolað burt. Ekki það að Sorrymeðmigkarlinn hafi ekki vel mátt fjúka, einlægni hans var bara svo vel metinn að hann fékk að vera.
Þannig að ég skal bara alveg viðurkenna að ég fór að grenja þegar ískalt vatnið gusaðist yfir svefnavana líkama minn í morgun. Hágrenja. Hor og ekki.
En svo var það búið og ég er bara anskoti brött núna. Ennþá allavega á meðan barnið sefur daglúrinn sinn.
Góða helgi og gleðilegt flatt smjörkrem, eðlileg augnhár og allskonar tilfinningar.