Föstudagur 25. október, 2024
3.2 C
Reykjavik

Framtíðarsýn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Maður án framtíðarsýnar mun alltaf fara baka til fortíðar segir frægt máltæki. Upphafsspurning hvers ferðalags er gjarnan hvert er förinni heitið. Það er hægt að láta sig fljóta niður ána án áfangastaðar, en í því er jafnframt fólginn ákveðinn galdur. Líklega liggur sannleikurinn í jafnvæginu. Hafa augun á áfangastað og hafa til þess árar, en á sama tíma hafa þann hæfileika að fljóta með straumnum án mikillar mótstöðu þegar hann tekur yfir.

Í íslenskum stjórnmálum skortir framtíðarsýn. Að minnsta kosti er hún ekki sýnileg í fréttum og í umræðum manna á milli. Í aðdragana kosninga blasir við að fólk er iðulega að greina á um útgjaldaliði t.d. hver eigi að vera ríkisframlög til opinbers reksturs eins og heilbrigðismála, hver eigi að vera skattprósenta innan kerfis sem við þegar höfum og um hver gerði hvar og hvernig í fortíðinni. Kosningaloforð sem byggja á fjármunum í víðara samhengi eru jafnframt býsna algeng. Ef einhverja framtíðarsýn er að finna nær hún iðulega til eins kjörtímabils.

Mannkynið stendur nú á tímamótum. Í fyrsta lagi, loftslagsbreytingar sem munu raungerast með mun meiri afgerandi hætti á næstu árum og áratugum. Vísindamenn hafa búið til ýmis spálíkön og engin af þeim mála fallega mynd þar sem jörðin dafnar. Efnahagsleg áhrif ein og sér verða talsverð, fyrir utan áhrifin á auðlindir og náttúru jarðar, aukningu flóttamanna, fæðuöryggi og matvælaframleiðslu og svona má lengi telja – en talið er að hagvöxtur geti dregist saman allt að 10% við lok þessara aldar.

Í annan stað er það tæknivæðing með innkomu gervigreindar og vélmenna, en sjálfvirknivæðing mun hafa í för með sér verulegar breytingar á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu sem kom út snemma þessa árs er því spáð að 28% starfa hér á landi taki verulegum breytingum eða hverfi alveg og um 58% starfa verði fyrir miklum breytingum. Heimspekingar verða líklega eina stéttin sem mun hafa meira að gera en áður þar sem erfitt er að forrita vélmenni með sans fyrir gráu svæðunum í lífinu þ.e. a. s. þessum erfiðu ákvörðunum þar sem stöndum frammi fyrir þar sem svörin eru ekki alltaf einhlít.

En spurningin er: Hvert erum við að fara? Hvernig samfélag ætlar Ísland að vera? Hvaða atvinnuvegi ætlum við að leggja áherslu á fyrir utan þessa hefðbundnu? Ætlum við að skipuleggja til langs tíma, í sameiningu? Taka forystu og vera leiðtogar eða fljóta með straumnum og bíða eftir að ferðamenn komi til landsins eða makríll syndi inn í lögsöguna. Við verðum kannski alltaf jafn heppin. Ætlum við að vera í stöðugu viðbragði – eins og hefur einkennt íslensk stjórnmál um langt skeið – eða ætlum við að sýna forsjálni.

- Auglýsing -

Tæknivæðing og loftslagsbreytingar krefjast langtímahugsunar. Það er áskorun í sjálfu sér. Grænar, sjálfbærar lausnir eiga að vera rauði þráðurinn – skulum við segja græni þráðurinn – í athöfnum hins opinbera í dag og til framtíðar. Sjálfbærni á að móta allar ákvarðanir hins opinbera og stuðningur við sjálfbæran lífstíl skal vera leiðarljósið í hvívetna. T.d. skulu fjárlög byggja á því og aðrar lagasetningar. Hvernig væri að nýta sjálfvirknivæðinguna og tækni til góðs? Til að hjálpa jörðinni og okkur. Löggjafinn og stjórnvöld hafa öll þessi tæki til að stýra samfélaginu og markaðnum. Að sama skapi eru margar góðar stefnur sem hvíla í skúffum stjórnvalda sem má dusta rykið af, t.d. um græna hagkerfið. Í nýrri aðgerðaráætlun stjórnvalda í umhverfismálum er t.d. ekki minnst á fjármálamarkaðinn eða reglusetningar á því sviði í tengslum við sjálfbærar fjárfestingar. Atvinnulífið er nú samt að mestu leyti knúið áfram af fjárfestingu. Ég kalla eftir mun breiðari framtíðarsýn en nú er boðið upp á og að við krefjum stjórnmálamenn frekari svara um hvert við stefnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -