Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Frekjurnar í Vesturbænum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar ég var unglingur tók ég þátt í knattspyrnumótinu ReyCup sem er haldið árlega í Reykjavik og taka mjög mörg lið á landinu þátt í hvert skipti. Lokahóf mótsins var haldið á skemmtistaðnum Broadway, blessuð sé minning hans, og þar voru öll liðin mætt til að skemmta sér og hafa gaman. Auddi og Sveppi voru kynnar og eitt af því sem þeir gerðu var að athuga hvernig stemmingin var á staðnum. Sem dæmi sögðu þeir „Er FH í húsinu?“ og þá öskruðu allir FH-krakkarnir og svo næst kom „Er Skallagrímur í húsinu?“ og allir krakkarnir af Borgarnesi trylltust. Þeir nefndu nokkur lið og alltaf við viðbrögðin þau sömu. En það breyttist þegar eitt lið var nefnt. „Er KR í húsinu?“ spurðu þeir en í stað þess að KR-krakkarnir fögnuðu tóku allir aðrir krakkar sig til og púuðu þá í kaf og þegar Auddi og Sveppi reyndu að stoppa það var púað á þá fyrir að reyna stoppa það af. Bakvið þessi viðbrögð var ekki illska eða öfund heldur sameiginleg upplifun krakka á landinu sem höfðu spilað við KR. Hroki, frekja og tilætlunarsemi virtust vera einu tilfinningarnar sem jafnaldrar okkar úr Vesturbænum gátu sýnt og voru foreldrar þeirra litlu skárri.

Af hverju er ég að segja ykkur frá þessari minningu?

Undanfarnar vikur hafa nokkrir íbúar á Nesvegi í Vesturbænum tekið pláss í Morgunblaðinu og kvartað yfir ógnarstjórn Reykjavíkurborgar og sagt frá því að það sé verið að brjóta á réttindum þeirra. Sem er auðvitað alvarlegt mál og þarf að taka á. Svo les maður viðtölin og fréttirnar og skoðar myndirnar og þá kemur í ljós að þetta fólk er galið. Fólkið er nefnilega, og myndirnar sýna það mjög skýrt, að leggja bílum sínum kolólöglega. Málið er hins vegar að Reykjavíkurborg hefur ekki tekið á þessum brotum með sektum á þessari götu fyrr en nú fyrir stuttu og segja því einhverjir að það sé kominn hefðarréttur. Svo vilja einhverjir íbúa meina að það sé öruggara að leggja svona vegna þess að það sé svo erfitt að keyra úr innkeyrslum þeirra án þess að stofna gangandi vegfarendum í hættu. Það heldur augljóslega engu vatni nema auðvitað hjá fólki sem ætti ekki að hafa bílpróf.

Ég hvet fólk til að skoða Nesveg á Google Street View, þar eru einhverjir fimm eða sex bílar á þeim myndum sem er lagt hálfum út á götu. Það þarf ekki mikla rökhugsun til að sjá hver hin raunverulega ástæða er og það sést meira að segja í nokkrum tilfellum á Google Street View. Í stað þess að fá eitt stæði við hús fá íbúar tvö, í flestum tilfellum. En í stað þess hugsa „Jæja, það komst upp um mig en svona er lífið“ eins og allt eðlilegt fólk myndi gera var tekin sú ákvörðun að hlaupa með málið í Morgunblaðið og reyna mála borgina upp sem illmenni í stríði gegn borgarbúum. En það er því miður nokkuð ljóst að hér er ekki eðlilegt fólk á ferðinni heldur dekraðar frekjur.

Best var samt viðtalið við franskan mann sem býr á Nesvegi en ásamt því leggja ólöglega segir hann borgina vera áreita sig en hann hefur fengið þrjár sektir undanfarna fjóra mánuði. Hann keyrir sko á umhverfisvænum rafbíl og gefur í skyn að hann megi leggja ólöglega vegna þess að hann þurfi að hlaða bílinn. Svo leggur hann til að þjóðin eigi að boða til mótmæla fyrir hönd hans og íbúa í götunni.

Það er nefnilega margt í Reykjavík sem þarf að bæta og er mikilvægt fyrir íbúa og fjölmiðla að benda á þá hluti þegar þeir koma upp en þetta fólk á enga vorkunn skilið. Réttara væri að benda og púa. Það virtist allavegna hjálpa jafnöldrum mínum í KR enda upp til hópa topp fólk í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -