Föstudagur 24. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Gamla konan í hettupeysunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

 

Í gær átti ég afmæli. Varð 37 ára sem mér þykir nokkuð vel af sér vikið. Hins vegar finn ég mig í dálítilli tilvistarkreppu þegar kemur að aldri mínum. Gerir sú staðreynd að mér finnst ungt fólk ganga í ljótum buxum og hlusta á leiðinlega tónlist mig að miðaldra herfu? Eða er ég enn þá með þetta, 37 ára gömul konan?

Að fara á djammið og vera kalt á lærunum með uppþembu af ódýru hvítvíni er jafnórafjarri löngun minni og ristilspeglun. Föstudagsmorgnar þykja mér til dæmis töluvert meira spennandi nú til dags heldur en föstudagskvöld. Þá morgna bíð ég æsispennt eftir vikulega uppáhaldsútvarpsþættinum mínum á Rás 1 sem byrjar rétt rúmlega níu. En þá eru yfirleitt þrír klukkutímar síðan ég fór á fætur.

Ég fer reglulega í um tveggja klukkustunda mæðraorlof og fer þá einsömul í sund í hverfislauginni mér til heilsubótar og andlegrar upplyftingar. Sit í funheitu gufubaðinu sem eftir vel heppnaða yfirhalningu lyktar ekki lengur eins og blautur labrador-hundur. Það þykir mér ánægjulegt. Ég fer í kalda pottinn líka þar til ég blána eins og Fridtjof Nansen. Það gerir mér gott. Ég er ekki enn þá farin að gera Mullers-æfingar á bakkanum en það styttist í það.

Það er (vísindalega) sannað að fólk hættir að uppgötva nýja tónlist eftir þrítugt. Þar er ég engin undantekning og þar sem ég stíg á bak settlega konuhjólinu mínu eftir sundferðina, set ég play-lista æsku minnar í eyrun og hjóla heim. Set upp hettuna á peysunni minni enda farið að kula. Ég kem við í sjoppu og kaupi mér bland í poka og appelsínusafa. Rekst á veggjakrot með málfarsvillu í sem ég leiðrétti snarlega með merkitússi.

Ég læsi konuhjólinu mínu niðri í hjólageymslu í þann mund sem meðlimir Rage Against the Machine bjóða mér ítrekað að fara í rassgat, þeir muni ekki fara eftir tilmælum mínum. Ég fer upp í íbúðina mína, kyssi eiginmann og börn. Ég er enn þá með þetta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -