Fimmtudagur 23. janúar, 2025
1.6 C
Reykjavik

Geðheilbrigðismál – Horft um öxl í hálfa öld og fram á við

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Styrmi Gunnarsson

Þegar horft er um öxl í hálfa öld og framvinda geðheilbrigðismála íhuguð er tvennt sem vekur athygli. Í fyrsta lagi að geðræn vandamál hafa aukizt verulega og í öðru lagi að það verður ekki sagt að á þessu tímabili hafi orðið byltingarkenndar breytingar í meðferð geðsjúkdóma.

Hvað veldur?

Sennilega á aukning geðrænna vandamála rætur í verulega aukinni fíkniefnaneyzlu bæði hér og annars staðar. En hver er skýringin á því að ekki hefur tekizt betur til við að ná tökum á þessum sjúkdómum en raun ber vitni? Líklega sú að læknavísindin hafa ekki náð að skilja betur hvað valdi geðsjúkdómum. Og þess vegna hafi ekki orðið neinar grundvallarbreytingar á meðferð geðsjúkdóma.

Að vísu hafa komið fram á þessu tímabili einstök lyf sem hafa skipt máli og bætt líðan hinna sjúku en í ljósi mikilla framfara í meðferð margvíslegra sjúkdóma er óneitanlega umhugsunarefni að það á ekki við um geðsjúkdóma.

Mesta breytingin sem orðið hefur á hálfri öld eru þær opnu umræður sem undanfarinn aldarfjórðung hafa orðið um málefni geðsjúkra. Það er ekki lengur feimnismál að tala um geðveiki. Hvorki innan fjölskyldna né á opinberum vettvangi. Það er hins vegar athyglisvert hvernig sú breyting varð. Hún varð vegna þess að snemma á tíunda áratug síðustu aldar kom fram ungt fólk, sem ýmist hafði tekizt á við þessa sjúkdóma sjálft eða unnið með hinum geðsjúku, sem markvisst vann að því að brjóta niður þagnarmúrinn í kringum geðveiki.

- Auglýsing -

Sú barátta skipti máli vegna þess að þögnin var byrði á bæði sjúklingum og nánustu aðstandendum. Nú burðast fólk ekki lengur með þögnina og feluleikinn.

En reyndar hefur það líka vakið athygli hve lítið er um að geðlæknar og geðhjúkrunarfræðingar hafi tekið þátt í því að opna umræður um geðsjúkdóma. Hvað getur hafa valdið því?

Nú horfi ég á þessa veröld úr meiri fjarlægð en ég gerði í tæpa hálfa öld. Og þá er það tvennt sem ég tek eftir:

- Auglýsing -

Hið fyrra er að ný persónuverndarlög virðast hafa aukið á erfiðleika aðstandenda við að fá upplýsingar um veikindi sinna nánustu. Þó er það svo að í lögum eru ákvæði sem heimila sjúkrastofnunum að gefa slíkar upplýsingar en þeim ákvæðum virðist ekki beitt nema að takmörkuðu leyti. En ef aðgangi aðstandenda að upplýsingum um hina sjúku er lokað skapast óþolandi ástand í fjölskyldum.

Hið síðara er að það verður stöðugt augljósara að byggingin sem hýsir geðdeildina á Landspítalalóðinni er óaðlaðandi fyrir sjúklinga, svo ekki sé sterkara til orða tekið. Ég hef áður lýst þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að byggja nýtt hús yfir geðdeildina, sem taki meira tillit til þarfa sjúklinga fyrir hlýlegra umhverfi og sem rísi í umhverfi sem hæfir geðsjúkum betur. Og hef nefnt Vífilsstaði eða sambærilegan stað í því sambandi, þar sem sjúklingar geti notið náttúrunnar betur en í þéttbýlinu við Landspítalann.

Sé það rétt að aukin neyzla fíkniefna sé að einhverju leyti skýring á aukningu geðsjúkdóma blasir við að gera verði átak í að koma böndum á þá neyzlu og sölu og dreifingu fíkniefna. Slíkt átak kostar fjármuni en þeim fjármunum er vel varið.

En auðvitað má vel vera að skýringarinnar sé líka að leita í samfélagsbreytingum sem hafi aukið almennt álag á þjóðfélagsþegnana og gert þeim lífið erfiðara.

Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra tók við því ráðherraembætti, hefur verið unnið mikið starf í ráðuneyti hans undir verkefnastjórn Ernu Kristínar Blöndal til þess að undirbúa viðamiklar breytingar á löggjöf sem varða málefni barna, þar sem snemmbær íhlutun í málefni þeirra er lykilatriði. Þau lagafrumvörp verða lögð fyrir Alþingi í haust. Þar er sennilega um að ræða mestu breytingar í velferðarmálum sem ráðizt hefur verið í frá því á fjórða áratug síðustu aldar og á Viðreisnarárunum hjá Reykjavíkurborg sérstaklega.

Þær breytingar eru líklegar til að draga úr því samfélagslega álagi sem kann að eiga þátt í aukningu geðraskana á okkar tímum.

En jafnframt má telja að verulegt starf sé óunnið til þess að veita börnum sem eiga foreldri sem þjáist af geðröskunum, aðstoð við að takast á við þann erfiða þátt í lífi þeirra þegar þau eru að vaxa úr grasi. Um þann þátt er sérstaklega fjallað í þeirri þingsályktun Alþingis um geðheilbrigðismál sem samþykkt var fyrir nokkrum árum.

Það er unnið að geðheilbrigðismálum í ýmsum kimum samfélagsins. En það er ásækið umhugsunarefni hvort skynsamlegt gæti verið að að efla stjórnsýsluna í kringum þennan afmarkaða þátt heilbrigðismála með sterkari miðstýringu í kerfinu, sem hefði yfirsýn yfir alla þætti málsins og heimild til þess að blanda sér í þá, eftir því sem þörf krefur.

Annað „praktískt“ atriði má nefna sem snertir bæði geðsjúka og aðra sem þurfa á lyfjum að halda en það er greiðslukerfi lyfja sem tekið var upp fyrir nokkrum árum. Þeir sem þekkja það vita að í upphafi hvers tímabils borgar fólk ótrúlega hátt verð fyrir lyfin, sem svo lækkar jafnt og þétt. Ætli engum í stjórnkerfinu hafi dottið í hug, að það geti verið til fólk, sem á ekki fyrir þeirri háu greiðslu fyrir lyfin í upphafi tímabils?

Að mörgu leyti má segja að geðheilbrigðismál séu komin í „tízku“ á hinum pólitíska vettvangi. Þingmenn finna að þar er á ferð málaflokkur, sem þeir eigi að tala um. En þess verður að gæta vandlega að það verði ekki bara „tal“ eins og oft vill verða á vettvangi stjórnmálanna heldur að gerðir fylgi orðum. Það er orðið of mikið um að stjórnmálamenn leitist við að „tala“ um „réttu“ málin en svo ekki söguna meir. Hér er svo mikil alvara á ferðum að þessi málefni kalla á annað og meira en léttúðugt tal.

Það er engin spurning um að opnari umræður um geðheilbrigðismál hafa dregið úr fordómum – en þeir eru samt enn til staðar. Sigurinn er ekki unninn þótt verulegur árangur hafi náðst.

Annað vandamál sem tengist geðröskunum eru sjálfsvíg sem frá gamalli tíð hefur þótt bezt fara á að tala sem minnst um. Nú má finna hjá fólki sem vinnur að þessum málum áhuga á að opna umræður um sjálfsvíg. Geðröskunum fylgja oft tilraunir til sjálfsvíga sem stundum takast og stundum ekki. Það væri þarft verk að opna umræður um sjálfsvíg og líklegra en ekki að slíkar umræður geti dregið úr þeim.

Einn þáttur í þróun samfélags okkar seinni árin vekur sérstaka athygli og skal skýrt tekið fram, að er ekki nefndur hér vegna þess að hann tengist geðheilbrigðismálum, að mati greinarhöfundar. Þar er átt við margvíslegan vanda á vinnustöðum. Slík mál hafa á undanförnum misserum komið upp mjög víða. Svo dæmi séu tekin, á Reykjalundi, hjá SÁÁ og Reykjavíkurborg og nú síðast í tengslum við Gerðarsafn í Kópavogi. Í öllum tilvikum er um að ræða einhvers konar uppnám á vinnustöðum, þar sem einhverjir starfsmenn eru lagðir í einelti og aðrir leitast við að láta fyrir sér fara með þeim hætti að enn aðrir hrökkvi undan.

Hér er ekki um vandamál að ræða, sem rekja má til geðraskana. En þessi vandi sem virðist vera mjög víðtækur er til marks um að eitthvað amar að í samfélagi okkar. Hann eykur álag á fólk í daglegu lífi þess. Og aukið álag getur leitt af sér versnandi geðheilsu.

Kannski þurfum við að leggja meiri áherzlu á kennslu í mannlegum samskiptum í skólakerfi okkar. Það er spurning sem vaknar þegar fylgzt er með umsagnakerfum á samskiptamiðlum nútímans. Þar talar fólk um annað fólk með þeim hætti að fyrr á tíð hefði flokkast undir „dónaskap“.

Slíkum umsögnum um annað fólk er ekki hleypt í gegn á fjölmiðlum, sem lúta ritstjórn. En á samtímamiðlun er nánast ekki um neina ritstjórn að ræða og orðanotkun um aðra á þann veg að einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort hún bendi til þess að stór hluti þjóðarinnar sé illa upp alinn.

Þetta neikvæða umtal stuðlar að erfiðum tíðaranda.

Fram undan eru erfiðari tímar en núlifandi Íslendingar hafa áður kynnzt. Þeir munu reyna á geðheilsu þjóðarinnar.

Þeim fyrirsjáanlega vanda þarf að mæta með opnum umræðum.

Margt bendir til að það sé ungt fólk og miðaldra sem verði verst úti og þurfi á mestri aðstoð að halda. Líklega er erfiðara að vera ungur nú á tímum en áður. Kröfurnar eru meiri. Samfélagið flóknara. Hrunið vakti upp sterkar tilfinningar hjá fólki og gerir enn.

Unga fólkið sem er að útskrifast úr háskólum í dag stendur frammi fyrir flóknari veruleika en nokkur ung kynslóð frá tíma þeirra sem komu út úr skóla þegar heimsstyrjöldinni síðari var að ljúka.

Við sem eldri erum þurfum að rétta henni hjálparhönd eins og við getum.

Pistilinn er að finna í blaði Geðhjálpar

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -