Leiðari
Upphaf nýs árs kallar á uppgjör við árið sem kvaddi og við bregðum ekki út af þeirri venju hér á Mannlífi. Árið 2018 var fyrsta heila starfsár blaðsins í nýrri mynd og óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið vonum framar. Í könnun Gallup kom fram að 30 prósent Íslendinga lesa Mannlíf reglulega sem væntanlega þýðir að þið, lesendur góðir, kunnið að meta blaðið og það sem við bjóðum ykkur upp á. Þakka ykkur fyrir það.
Í Áramótaskaupinu fékk árið 2018 nafnbótina Ár perrans og sé flett í gegnum tölublöð Mannlífs á árinu kemur í ljós að sú nafngift er ekki fjarri lagi. Forsíðuviðtöl okkar hafa tekið á ýmsu því sem miður fer í þjóðfélaginu; áralangri misnotkun á börnum, hvernig kerfið bregst þeim sem þurfa aðstoð þess til að fá réttlætinu fullnægt, ofbeldi gegn konum, samkynhneigðum og trans fólki, þrátt fyrir endalausar yfirlýsingar um hvað Ísland sé framarlega í mannréttinda- og jafnréttismálum á heimsvísu og svona mætti lengi telja. Við fjölluðum um bakslag í #metoo-baráttunni, sviptingarnar hjá íslensku flugfélögunum, skortinn á úrræðum fyrir fólk með fíknisjúkdóma, skiptar skoðanir femínista á vændi og kynlífsiðnaðinum, pólitísk áhrif Klaustursmálsins og svo ótalmargar aðrar meinsemdir í samfélagi okkar sem of langt mál yrði að telja upp.
„Baráttunni er hvergi nærri lokið og við hér á Mannlífi munum halda áfram að fylgjast með, draga meinsemdir samfélagsins fram í dagsljósið og leita skýringa.“
Að sjálfsögðu fjölluðum við líka um alls kyns góð og gleðileg tíðindi, nema hvað? Sem betur fer var árið 2018 ekki alslæmt, fólk gerði góða hluti, fann nýjar leiðir í baráttunni gegn óréttlætinu, braut ýmsa veggi og hélt, merkilegt nokk, ótrautt áfram að berjast fyrir betri og réttlátari heimi. Þannig að þótt hin skuggalegu mál sem komu upp á yfirborðið á liðnu ári hafi stundum yfirskyggt það góða voru einnig unnir margir sigrar og þegar upp er staðið var fleira til að gleðjast yfir en harma. Við mjökumst í rétta átt þótt enn sé löng og torfær leið fram undan. Við megum ekki láta skuggana af ofbeldisverkunum og yfirganginum skyggja á þann árangur sem náðst hefur, þrátt fyrir allt.
Við megum heldur ekki einblína á hvað allt sé nú gott og allir hafi það gott á Íslandi, eins og ráðamenn hamast við að reyna að telja okkur trú um. Það er fjarri öllum sannleika. Fram undan eru hörð átök á vinnumarkaði, barátta til að reyna að minnka bilið milli þeirra sem hafa það alltof gott og hinna sem hafa það skítt. Brotalamir eru í heilbrigðiskerfinu, húsnæðismarkaðurinn hreinræktuð martröð, launamunurinn himinhrópandi, konur eru enn fyrirlitnar og svívirtar, börn og unglingar misnotuð, samkynhneigðir og trans fólk barið á götum úti og fólk með fíknisjúkdóma sett út á Guð og gaddinn, svo nokkur dæmi séu tekin. Baráttunni er hvergi nærri lokið og við hér á Mannlífi munum halda áfram að fylgjast með, draga meinsemdir samfélagsins fram í dagsljósið og leita skýringa. Auðvitað munum við einnig flytja ykkur gleðitíðindi og skemmtun.
Takk fyrir samfylgdina á liðna árinu. Gleðilegt ár.