Höfundur / Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í Reykjavík
Þegar ég var yngri fannst mér Reykjavíkurborg koma fram af virðingarleysi gagnvart stórum hluta af starfsfólki sínu. Mamma mín sem vann fullan dag á leikskóla sem ófaglærður starfskraftur og skúraði leikskólann eftir lokun var samt bláfátæk. Nú, mörgum árum síðar, blasir sami veruleiki við mörgum sem starfa á láglaunavinnustöðum, einkum konum þar sem um hefðbundna kvennastétt er að ræða. Konur halda uppi mörgum af grunnstoðum samfélagsins líkt og leikskólum og það er komið fram við þær eins og einnota vinnuvélar sem megi skipta út hvenær sem er. Þannig blasir myndin við mér þegar við vitum að lág laun leiða til gríðarlegs álags. Tölur síðustu ára sýna að fjölgun öryrkja hefur mest verið hjá konum 50 ára og eldri. Móðir mín er einmitt ein slík kona í hópi öryrkja m.a. vegna andlegs álags í kjölfar fjárhagslegra áhyggna vegna lágra launa. Ætli lág laun og örmögnun spili ekki hér inn í sem ástæður sem leiða til örorku?
Reykjavíkurborg gefur sig út fyrir að vera mikil jafnréttisborg, hún hefur m.a. sett sér þau markmið að vinna eftir kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun. Um daginn var ég spurð að því hvort það yrði ekki auðveldara að hækka laun kvennastétta ef fleiri konur væru við völd. Nú hafa aldrei fleiri konur verið kosnar í borgarstjórn en það hefur verið lítill sem enginn vilji hjá borgarmeirihlutanum að hækka lægstu launin. Tilraunir til að skapa umræðu um hvað telst vera ásættanlegt launabil á milli hinna hæst- og lægstlaunuðu innan borgarinnar hafa að sama skapi skilað litlu. Sem dæmi má nefna að hæstlaunaði borgarfulltrúinn, að undanskildum borgarstjóra er með um 1,7 milljónir í mánaðarlaun og þar af er hún með rúmlega 400.000 þúsund krónur fyrir stjórnarsetu á vegum Reykjavíkurborgar, sem eitt og sér er miklu hærra en grunnlaun ófaglærðra á leikskólum borgarinnar.
„Nú hafa aldrei fleiri konur verið kosnar í borgarstjórn en það hefur verið lítill sem enginn vilji hjá borgarmeirihlutanum að hækka lægstu launin.“
Í baráttunni fyrir því að brjóta glerþökin, höfum við gleymt konunum í kjallaranum sem þurfa að sópa upp glerbrotin. Ég gleymi aldrei þessari myndlíkingu sem ég las einu sinni í grein, mér fannst hún svo öflug og lýsir þeirri jafnréttisbaráttu sem hefur verið ráðandi. Höfuðáherslan hefur verið á þarfir og væntingar millistéttarkvenna sem hafa það gott fjárhagslega og unnið hefur verið að því að fjölga þeim í æðstu stjórnunar- og valdastöðum þar sem hallar á þær. Í baráttunni upp á toppinn, höfum við gleymt konunum á botninum. Ég spyr því, hversu langt nær jafnréttið? Hversu mikið tökum við tillit til efnahagslegrar stöðu í jafnréttisáætlunum? Leiðarljós kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar snýr að réttlátri dreifingu gæða og fjármuna með tilliti til þarfa borgarbúa. Ef Reykjavíkurborg notar það sem greiningartæki á launaseðla ófaglærðra kvenna á leikskólum borgarinnar, myndi borgin þá komast að því að láglaunastefna hennar viðheldur efnahagslegri kúgun kvenna?