Fimmtudagur 23. janúar, 2025
1 C
Reykjavik

Góð viðleitni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Héðin Unnsteinsson

Kæru félagar og landsmenn,

Á forsíðu þessa blaðs birtum við tölu. Talan stendur fyrir þá íbúa Íslands sem féllu fyrir eigin hendi á árinu 2019. Við höfum í gegnum árin veigrað okkur við að ræða þessa tölu, þennan mælikvarða, opinberlega. Ástæða þess að við í Landssamtökunum Geðhjálp, í samstarfi við Pieta samtökin, opinberum töluna núna er tvíþætt. Annars vegar viljum við ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem aðstandendur verða fyrir og hins vegar viljum við ræða þá ástæðu sem býr að baki og orsakaþætti geðheilbrigðis. Orsakir sem skipta okkur öll máli og hafa áhrif á líðan okkar. Orsakir sem í okkar „rafmögnuðu“ tilveru eru fjölþættar og þarfnast meiri umræðu en kerfi samtímans leyfa því þau snúast frekar um einkenni og afleiðingar. Athygli okkar þarf í ríkara mæli að vera „fyrir ofan fossinn“, svo vísað sé í grein framkvæmdastjóra Geðhjálpar hér í blaðinu.

Nú, þegar nær átta mánuðir eru liðnir frá því að COVID byrjaði að breyta hugsana- og hegðunarmynstrum okkar, er ljóst að áhrifin á félags- og efnahagslega orsakaþætti geðheilsu verða mikil. Geðheilbrigði er margvítt hugtak og það, ásamt greiningum á frávikum þess, eru byggðar á hugsun, einhverju sem við höfum þó aldrei getað skilgreint og oft ekki skilið. Það liggur því í eðli hugtaksins og frávika þess að það eru fáir mælikvarðar til á geðheilsu.

Viðleitni okkar í lífinu hlýtur alltaf að miða að því að bæta líðan og forðast vanlíðan. Fyrir rúmum 20 árum síðan stóð hópur fólks á vegum Geðhjálpar, Embættis landlæknis, Heilsugæslunnar og heilbrigðisráðuneytisins að þriggja ára landsverkefni; Geðrækt:

Markmið þess voru m.a. að:
• bæta líðan almennings,
• auka forvarnir og fræðslu um geðsjúkdóma og geðheilbrigði,
• draga úr fordómum í garð fólks sem verður fyrir geðröskun,
• auka geðheilbrigðisvitund landsmanna,
• draga úr áhrifum geðraskana á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild,
• stuðla að því að geðheilbrigði sé jafn sjálfsagt og eftirsóknarvert og líkamleg hreysti,
• draga úr samfélagslegri byrði og kostnaði vegna geðraskana,
• draga úr tíðni geðraskana,
• fækka innlögnum á geðdeildir,
• stuðla að skynsamlegri notkun geðlyfja,
• minnka óbeinan kostnað tengdan geðröskunum,
• fækka sjálfsvígum.

- Auglýsing -

Þegar litið er yfir þessi markmið nú er ljóst að þrátt fyrir að þau séu í fæstum tilfellum mælanleg, þá eru flestir sammála um að okkur, sem samfélagi, hefur tekist að auka fræðslu og þekkingu á geðröskunum. Að einhverju leyti, hefur einnig tekist að auka þekkingu á orsakaþáttum og vitund um geðheilbrigði. Tölur síðustu ára um tíðni geðraskanna og aukna örorku af þeirra völdum benda til mikillar aukningar og samhliða hefur geðlyfjanotkun aukist mikið. Aukning á örorku vegna geðraskana sl. 30 ár er nærri 250% en á sama tíma hefur þjóðinni fjölgað um 43%.

Það er mér því til efs að okkur hafa tekist að draga úr áhrifum geðraskana á einstaklinga, fjölskyldur eða samfélagið í heild. Mat Landlæknisembættisins á andlegri líðan frá 2007 til 2017 sýnir að henni hefur heldur farið aftur en hitt. Við vitum ekki nóg um fordóma og mismunun til að meta hvort eitthvað hefur áunnist þar en aðeins ein rannsókn hefur verið gerð á því í alþjóðlegu samhengi, sú birtist árið 2009. Geðhjálp hyggst standa fyrir því að sambærileg könnun verði framkvæmd snemma á næsta ári. Hlutdeild geðheilbrigðismála í þeim fjármunum sem renna af hálfu almannaþjónustunnar til heilbrigðismála, endurspegla engan veginn umfang geðheilbrigðismála. Áætlað umfang þeirra er 30% af heilbrigðismálum en fjárveitingar eru aðeins um 10%.

Í ljósi þessa er eðlilegt að álykta að viðleitni okkar til að rækta geðheilsu og vinna með orsakaþætti geðheilbrigðis sé góðra gjalda verð en að okkur verði ekki nægilega ágengt. Við syndum á móti stríðum straumi og ber frekar niður ána en upp. Þróun greiningakerfisins DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders – fimmta útgáfa frá 2013) hefur haft mikil áhrif. Fyrsta greiningakerfið var sett fram árið 1883 með sex greiningum en sé allt tekið til í fimmtu útgáfunni er mögulegur fjöldi frávika/greininga nú orðinn 600!

- Auglýsing -

Hér er rétt að staldra við. Geðlæknar og aðrir sérfræðingar, s.s. Dainius Puras, sérstakur talsmaður Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, hafa velt því fyrir sér hvort greiningakerfið sé orðið of umfangsmikið, frávikin orðin of mörg? Þarf ef til vill frekar að leggja áherslu á að greina styrkleika manneskjunnar á tímum þegar mennskan virðist eiga undir högg að sækja í gervigreindarsniðnum veruleika samfélagsmiðla? Veitum við kerfinu of mikið vald þegar almannaþjónusta í skólum og víðar tekur beinlínis mið af þessu kerfi? Fylgja skilgreiningarnar og „merkimiðarnir“ manneskjum sem upplifa tímabundna röskun alla tíð? Fólk getur aldrei orðið geðröskun eða sjúkdómur, eins og stundum má skilja af fjölmiðlum þegar manneskjur sem takast á við geðrænar áskoranir eiga í hlut. Við megum ekki verða raskanir – megum ekki leyfa þeirri orðræðu að ráða. Geðheilbrigði allra kemur fyrst.

Þegar ég tók við formennsku í Geðhjálp, hafði ég væntingar um að félagið gæti starfað í anda tveggja „slagorða“. Annars vegar gamals slagorðs finnska fyrirtækisins Nokia frá tíunda áratug síðustu aldar, að tengja fólk (e. connecting people) og hins vegar tilvitnunar sem höfð er eftir Harry S. Truman, forseta Bandaríkjanna: „Það er með ólíkindunum hverju þú færð áorkað í lífi þínu, svo framarlega sem þér stendur á sama um hver fær heiðurinn af því.“

Í anda síðari tilvitnunarinnar ætlum við í Geðhjálp að stofna styrktarsjóð. Eftir sölu á húsi samtakanna, sem hið opinbera gaf félaginu árið 1996, standa eftir töluverðir fjármunir sem við viljum leggja í sjóð til að hjálpa öðrum að vinna góð verkefni í þágu geðheilsu þjóðarinnar. Við viljum fá opinbera aðila og einkaaðila í lið með okkur svo sjóðurinn verði veglegur, með sjálfstæðri stjórn og fagráði. Vinnan er hafin og stefnt er að því að sjóðurinn taki til starfa á næsta ári.

Í nýrri stefnu Geðhjálpar er hlutverk samtakanna skýrt: Að rækta geðheilsu Íslendinga. Við viljum stuðla að heilsujafnrétti, efla fræðslu og veita vandaða ráðgjöf þar sem þörfum allra hópa er mætt af virðingu. Við viljum ástunda framsækni í málaflokknum og þróa snjallar aðferðir sem styðja við þjónustu, fræðslu og hagsmunagæslu í samráði við notendur og aðstandendur og aðra áhugasama. Við viljum ástunda öfluga geðrækt og standa að gerð geðræktarefnis fyrir alla aldurshópa. Síðast en ekki síst viljum við standa vörð um mannréttindi fólks með geðraskanir og aðstandenda þeirra.

Við höfum beitt okkur á síðustu árum fyrir því að aftengja mýtur. Mýtur um að fólk sem tekst á við geðrænar áskoranir sé t.d. ofbeldishneigðara en almennt gerist. Við höfum ásamt öðrum gert tilraun til þess að hafa áhrif á orðræðu fjölmiðla þegar kemur að umfjöllun um geðraskanir og sjálfsvíg. Þar hefur heilmikið áunnist. Við höfum beitt okkur kröftuglega fyrir breytingum og umbótum á lögræðislögum og þeirri staðreynd að enn er nauðung beitt í geðheilbrigðiskerfinu. Nauðung sem oft leiðir af sér ofbeldi og óþarfa lífsgæðaskerðingu. Því leggjum við til fyrir stjórnvöld framsækna hugmynd um „þvingunarlaust Ísland“ sem við munum halda áfram að kynna á næstu mánuðum.

Í blaðinu eru einnig þrjú viðtöl. Við Signýju Rós, ungan snilling, sem fannst hún ekki passa inn í kassalaga kerfi og fann sér skapandi leið að tilgangi. Saga hennar, eins og margra annarra, getur verið okkur leiðarljós í þeirri byltingu að „kassarnir“ okkar verði hannaðir út frá og rúmi fjölbreytta styrkleika.

Varaformaður Geðhjálpar, Sigríður Gísladóttir, ræðir um mikilvægi þess að efla stuðning við börn sem alast upp hjá foreldrum með geðrænar áskoranir. Málefni sem Geðhjálp hefur sett á oddinn og fjallað verður um á málþingi í nóvember og fylgt eftir með fræðslu. Einnig er viðtal við sálfræðingin Lilju Sif Þorsteinsdóttur um tengsl, áföll og afleiðingar þeirra.

Styrmir Gunnarsson lítur yfir farinn veg og veltir fyrir sér þróun og stöðu geðheilbrigðismála í samhengi síðustu áratuga.

Það eru fleiri málþing á dagskrá. Málþingið „En ég var einn“ fjallar um stöðu stráka í skólakerfinu og er haldið í samvinnu við menntavísindasvið Háskóla Íslands og Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar. Því er skipt upp í fjórar styttri málstofur og fór sú fyrsta fram 9. september sl. og hinar eru á dagskrá 5. nóvember, 21. janúar og 18. mars nk. Auk þess stöndum við fyrir málþingi og umræðum í sal Íslenskrar erfðagreiningar 22. október nk. um rannsóknir á vitundarvíkkandi efnum í lækningaskyni. Þar hefur framsögu dr. Robin Carhart-Harris, forstöðumaður hjá Imperial College í London.

Auk þessa heldur félagið uppi kröftugri fræðsludagskrá í allan vetur. Allar upplýsingar er að finna á vefsíðu félagsins, gedhjalp.is, auk upplýsinga um aðra þjónustu samtakanna, s.s. sálfræðiráðgjöf sem haldið verður áfram að bjóða upp á endurgjaldslaust.

Samfélag okkar stendur frammi fyrir áskorun. Ljóst er að fé til almannaþjónustu ríkis og sveitarfélaga dregst saman næstu misserin en allar líkur eru á að þörfin fyrir þjónustuna aukist. Því er mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn, í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti og vörn, í þeirri merkingu að bæta viðbragðskerfi okkar.
Til verksins höfum við gamla hugmyndafræði þar sem raskanirnar fá meira vægi, fjármagn og athygli en heilbrigðið sem röskunin (frávikið) er dregin af. Við þurfum að snúa af þessari braut. Endurskoða vitund okkar, hugsun og hegðun þegar kemur að geðheilbrigði og sálarlífi mannsins. Taka umræðuna út frá heild en ekki í smáskömmtum. Heildarúttekt löggjafans á kerfinu væri ágætis byrjun.

Höfundur er formaður Geðhjálpar

Pistilinn er að finna í blaði Geðhjálpar

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -