Í gær lauk fjórða og síðasta þættinum af Vigdísi.
Við hjónin grétum bæði yfir lokaþættinum þannig að það er hægt að fullyrða að hann hafi verið nokkuð áhrifaríkur og hef ég heyrt svipaða sögu frá vinum og vandamönnum. Ég held að það komist nokkuð nærri lagi að kalla Vigdísi skylduáhorf þó að þriðji þáttur nái ekki sömu hæðum og hinir þættirnir. Hann náði ekki að flæða jafn vel og hinir þættirnir en þar fyrir utan er nánast allt er í hæsta gæðaflokki á sviðum kvikmyndagerðar.
Ég verð að viðurkenna að ég er gríðarlega forvitinn um alla þá forvinnu sem fór í gerð Vigdísar. Á hvaða tímapunkti var ákveðið að hoppa yfir mörg ár í lífi Vigdísar? Voru þau ár einfaldlega ekki metin nógu spennandi eða var ákvörðunin vegna fjárskorts? Kannski var það eitthvað annað.
Ég velti líka fyrir mér hvort samband hafi verið haft við aðstandendur Alberts Guðmundssonar en ég get alveg ímyndað mér að fjölskyldan hans sé ekkert sérstaklega hrifin af þeirra mynd sem máluð er af honum, burt séð frá því hvort hún á rétt á sér eða ekki. Jóhannes Haukur Jóhannesson var að minnsta kosti mjög sannfærandi í hlutverki óþolandi stjórnmálamanns, hvort sem hann heitir Albert eða eitthvað annað.
Eitt sem ég nefndi ekki í pistli mínum um fyrstu tvo þættina er tónlistin. Það fer almennt séð lítið fyrir henni og ég áttaði mig ekki á hversu þýðingarmikil hún er fyrr en í lokaatriði fjóra þáttar. Hún er svo látlaus og náttúruleg að henni tókst að verða hluti af sögunni ef svo mætti segja.
Það verður forvitnilegt að sjá hvað Vesturport gerir næst en þau eiga skilið að fá allan pening sem þau óska eftir í næsta verkefni. Vigdís sýnir að þeim er treystandi fyrir hverju sem er.