Mánudagur 6. janúar, 2025
-3.2 C
Reykjavik

Háklassa Vigdís

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú hefur RÚV sýnt tvo þætti af Vigdísi og eru tveir þættir eftir af þáttaröðinni en eins og eflaust flestir vita fjalla þættirnir um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Fyrsti þátturinn gerist að mestu leyti árin 1949 til 1952 þegar Vigdís er að klára nám sitt í MR og fer til Frakklands í framhaldsnám. Sá seinni fjallar aðallega um líf Vigdísar í Danmörku og Svíþjóð með eiginmanni sínum á sjötta áratug síðustu aldar.

Þegar ég frétti að það stæði til að gera þætti um frú Vigdísi varð ég strax forvitinn hvernig stæði til að sýna höfuðborgarsvæðið á eftirstríðsárunum. Það er ekkert grín fyrir kvikmyndagerðarfólkið að þurfa að blekkja áhorfendur til að fá þá til að trúa að sum atriði gerist á þeim tíma sem þau eiga gerast en það tekst mjög vel, þó að skiljanlega þurfi að „svindla“ lítillega. Ég hef að minnsta kosti náð að sökkva mér í sögusviðið. Guð blessi Prikið og Menntaskólann í Reykjavík. Eiginkona mín benti á að hún minnist ekki þess að drengir á menntaskólaaldri hafi verið með jafn há kollvik og skólafélagar Vigdísar virðast hafa verið með en það angraði mig ekki.

Ég ætla ekki að þykjast að hafa hugmynd um hvernig frú Vigdís var í kringum tvítugt og hvað þá fólkið sem stóð henni næst en leikararnir hafa algjörlega tekist að sannfæra mig um hlutirnir sem gerast í þáttunum hafi gerst í alvöru. Þó er tekið sérstaklega fram í upphafi hvers þáttar að sumar persónur og atvik kunni að vera skáldaðar í dramatískum tilgangi. Elín Hall sýnir að venju stórleik en hún fer með hlutverk Vigdísar á yngri árum og þá er Eggert Þorleifsson frábær sem Finnbogi faðir Vigdísar. Það er ekki veikan blett að finna þegar kemur að vali á leikurum. Guðmundur Ólafsson leikur lítið hlutverk sem kennari Vigdísar í MR en hann lék kennara Nóa í kvikmyndinni Nói Albínói. Í mínum huga er þetta sami kennari. Áhorfendur fengu svo aðeins að kynnast Nínu Dögg Filippusdóttur sem Vigdísi í lok 2. þáttar og hún stóð sig með prýði eins og við var að búast.

Það er rosalega lítið hægt að setja út á fyrstu tvo þættina, í raun væri það aðeins smámunir og tittlingaskítur sem ættu ekki að trufla neinn nema mögulega geðilla leikstjóra og handritshöfunda.

Það sem skiptir máli er að allir ættu að horfa á Vigdísi því að gæðin eru mikil og vonandi verða seinni þættirnir tveir í sama gæðaflokki og fyrstu tveir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -