Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Hugrenningar um hvítleika og menningu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar ég var 19 ára flutti ég til Mið-Ameríku. Það var í fyrsta sinn sem ég eyddi lengur en viku fyrir utan Ísland og meira en allt annað, þá var erfiðast við þá reynslu að horfast í augu við hversu mikilli foréttindabúbblu ég var að koma frá. Hversu auðveldlega ég hafði horft fram hjá mínum eigin hvítleika á kostnað annarra. Þegar ég sagði vinum mínum þar frá Íslandi voru eftirfarandi hlutir sem stóðu upp úr:

  1. Það er enginn rasismi til á Íslandi
  2. Það er engin stéttaskipting á Íslandi
  3. Ísland er best í heimi, fallegast í heimi og land tækifæra og lakkríss
  4. Ísland er fullkomið

Ég er þakklát fyrir að vera ekki jafn forréttindablind í dag, en ég get þakkað svo sem öllum nema sjálfri mér fyrir það. Þegar íslensk vinkona mín, sem á foreldri frá Íran, sagði mér, meðal annars, hversu útilokandi, þreytandi og rasískt væri fyrir hana að upplifa að stöðugt væri verið að spyrja hana; „hvaðan ertu samt í ALVÖRUNNI frá?“, gerði ég lítið úr reynslu hennar. Þrátt fyrir að ég vissi að hún hefði flutt úr landi vegna stöðugs áreitis frá velviljandi Íslendingum. Ég útskýrði fyrir henni hversu eðlislægt það væri fyrir Íslendinga að vera forvitnir um einhvern sem er með svart hár. Margt hefur breyst síðan þá.

En af hverju hélt ég að rasismi væri ekki til á Íslandi þegar ég ólst upp við að nágrannarnir mínir frá Perú voru kallaðir grjón daglega? Þegar ég vissi vel hvernig er talað um Pólverja og Taílendinga á Íslandi?

Af því að menningin sem ég ólst upp í er gegnsýrð af hvítleika, afneitun og þjóðerniskennd. Af því að kennarinn minn sagði okkur í félagsfræðitíma að Ísland væri eina landið í heiminum sem væri eingöngu með millistétt og að allir hér væru jafnir fyrir augum Guðs og forseta Íslands. Af því að menning er jafn ósýnileg og hún er veigamikil.

Ég gerði meistararannsókn mína í samstarfi við forvarnarsamtök í Ástralíu sem heita Vaktin okkar (Our Watch). Þau hafa helgað sig að því að vinna gegn ofbeldi með því að breyta ríkjandi menningu – hvort sem þú kallar það nauðgunarmenningu eða einfaldlega núverandi samfélagsstaðla (ég kalla það feðraveldið) – sem er helsta ástæða þess að það reynist svo erfitt að ná fram raunverulegu jafnrétti. Dagleg hegðun sem við teljum vera saklausa, litar og er lituð af menningunni í kringum okkur. Enginn maður er eyja, o.s.frv. Þegar við segjum saklausa brandara um svart eða asískt fólk sem byggjast á staðalímyndum eða réttlætum öráreiti, eins og ég gerði með að segja vinkonu minni að Íslendingar séu bara forvitnir, viðheldur það menningu sem leyfir rasisma að grassera. Hvort tveggja fyrir velmeinandi Íslendinga og í kerfinu okkar.

Við sáum útkomuna af þessu fyrir íslenskt samfélag í #metoo-reynslusögum erlendra kvenna sem voru birtar í Kjarnanum. Reynslusögur sem eiga að vera skyldulesning fyrir okkur öll á Íslandi.

- Auglýsing -

„Að breyta menningu er erfitt vegna þess að það krefst þess af einstaklingum að gefa upp þau völd sem þau hafa, og fólk vill einfaldlega ekki gera það.“ – Loren Days

Höfundur er Linda Rós Eðvarsdóttir, doktorsnemi í krítískum fræðum við Háskóla Íslands.

Doktorsverkefni: Reynsla erlendra kvenna af vinnustaðatengdu ofbeldi á Íslandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -