Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hvað er líkamsvirðing?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pistill
Eftir / Björn Þór Sigurbjörnsson

Líkamsvirðing (body positivity) er hugtak sem margir kannast við. Hugtakið felur í sér að virða líkama sinn nákvæmlega eins og hann er, óháð því hvert raunverulegt ástand hans er. Líkamsvirðing felur það líka í sér að bera virðingu fyrir líkamsástandi annarra, algjörlega óháð því hvernig annað fólk lítur út. Stundum kann það að vera að þeir sem hafa sterkar skoðanir á því hvernig aðrir líta út eru gjarnan sjálfir ósáttir, kröfuharðir og jafnvel ósanngjarnir við sig sjálfa.

Mér finnst ærið tilefni til að fjalla um þetta hugtak á þeim forsendum að við erum, að mér finnst, allt of mörg, eins og áður sagði beinlínis ósanngjörn og vond við okkur sjálf. Við horfum á líkamsástand okkar og erum ekki sátt.

Mörg okkar hafa alist upp við skilaboð frá foreldrum, fjölskyldu og/eða vinum um að við séum svona og hinsegin og að við verðum nú að fara að bæta úr þessu. Við lærum bæði fljótt og vel að við erum stundum ekki nóg. Líkamsvirðingin sem ætti að vera okkur eðlislæg (sjáið t.d. börn) týnist. Því miður bætast svo við skilaboðin sem dynja á okkur úr umhverfinu, sem eru stundum ekkert annað en mjög óholl. Við eigum t.a.m. að bera á okkur krem sem eyðir appelsínuhúð, ná upp svo og svo miklum vöðvamassa og konur fá leiðbeiningar um hvernig þær geta komið sér í „bikiníform“ á ekki minna en korteri! Og það er því miður hægt að halda endalaust áfram!

„Um samfélagsmiðla flæða skilaboð og myndir sem eru svo mikið unnar og pússaðar að langflestum fallast hendur. Sem er skiljanlegt því raunveruleikinn er filterslaus.“

Um samfélagsmiðla flæða skilaboð og myndir sem eru svo mikið unnar og pússaðar að langflestum fallast hendur. Sem er skiljanlegt því raunveruleikinn er filterslaus. Allt of margir gleyma því að það er algjörlega galið að bera sig saman við myndir! Það getur því verið talsvert snúið að halda bæði fókus og í líkamsvirðinguna sína og gæta þess að fara út í daginn með það á bak við eyrað (helst bæði!) að það sem okkur er boðið upp á „þarna úti“ er bjagað og kolrangt.

Með þetta í huga getum við svo velt fyrir okkur hvort líkamsvirðing okkar sé nægilega heilbrigð og ef ekki, hvort við getum þá snúið ofan af afleiðingum óheilbrigðra skilaboða sem hafa skekkt rétt okkar til að bera virðingu fyrir líkama okkar. Hugarfar okkar gagnvart þessu ótrúlega apparati sem líkaminn er, er gríðarlega mikilvægt því margt bendir til að þeir sem ekki bera virðingu fyrir líkama sínum séu oft líklegri til að vanrækja hann. Borða óholla fæðu, stunda síður reglubunda hreyfingu og þar fram eftir götunum. Slæm líkamsvirðing helst líka oft í hendur við „allt eða ekkert“-viðhorfið og vilja árangur strax, ekki seinna en í gær, sem verður að teljast óraunhæft því ef viðhorf okkar er þar gefumst við upp. Þetta er ekki spretthlaup, svo mikið er víst.

- Auglýsing -

Heilbrigt viðhorf gagnvart líkama og heilsu eykur líkurnar á að við séum og getum orðið heilsuhraust, glaðari og mögulegur bónus gæti verið að við verðum beinni í baki, sterkari og förum inn í efri árin heilbrigð og stolt af okkur sjálfum. En fyrsta skrefið er alltaf að sýna okkur góðvild, sættast við líkamann og vilja honum vel og gera þar af leiðandi betur. Næsta skref gæti verið pæling um hvað þér finnst skemmtilegt og mestar líkur eru á að þú haldir áfram í því ef þér finnst hundleiðinlegt að vera inni á líkamsræktarstöð eða hlaupa, þá á einhverjum tímapunkti hættirðu sennilega. Ef þú veist ekki hvað þér gæti fundist gaman, þá er bara að fikra sig áfram og prófa alls konar. Og stundum er það þannig, að eitthvað sem manni finnst hundleiðinlegt í byrjun, verður ánægjulegra með tímanum þegar maður fer að sjá af því ávinning.

Lykillinn að árangri er alltaf, fyrst og fremst, heilbrigð líkamsvirðing því þar hefst ferðalagið að markmiðum þínum og árangri. Árangur er svo fyrir hvern og einn að ákveða fyrir sig, í auknu heilbrigði, getu til að ganga upp á fell eða fjall, verða sterkari, byggja upp sjáanlega vöðva eða hvað það er. Um leið verður þú fyrirmynd fyrir fólkið sem umgengst þig.

Hafa skal í huga að slök líkamsvirðing er álíka óholl og ruslfæðið.

- Auglýsing -

P.s. Það gladdi mig ósegjanlega mikið þegar kona sem er í þjálfun hjá mér sagði mér: „Veistu, í dag snýst líkamsræktin mín ekki lengur um að lúkka bara vel á sundlaugarbakkanum. Hún snýst orðið meira um að verða eins heilbrigð og ég get, sterkari, glaðari og geta gert það sem mig langar til þess að gera!“
Við eigum það besta skilið og við getum mun meira en við oft teljum okkur trú um í fyrstu!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -