Ég skal fúslega viðurkenna að ég á til að synda á móti straumnum þegar kemur að skoðunum á knattspyrnu en ég einfaldlega næ ekki utan um þær hugleiðingar að íþróttablaðamenn og aðdáendur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu telji árangur Åge Hareide með landsliðið ekki nógu góðan. Í raun er talað um það innan knattspyrnuheimsins að öruggt sé að Norðmanninum verði sagt upp í nóvember en hann er með uppsagnarákvæði í samningi sínum sem hægt er að virkja þá.
Ég geri mér grein fyrir því að metnaður er mikilvægur en það verður að vera smávegis væntingastjórnun sem fylgir með. Liðið hefur unnið sjö leiki, gert tvö jafntefli og tapað níu í þjálfaratíð Hareide. Þá leiki þarf líka að setja í samhengi.
Tökum seinustu tvo leiki sem dæmi, sem voru gegn Wales og Tyrklandi. Það að Ísland fékk aðeins eitt stig úr þeim leikjum skrifast ekki með nokkru móti á Hareide. Ef ekki hefði verið fyrir óheppni og reynsluleysi sumra leikmanna hefði Ísland átt að fá fjögur stig og jafnvel sex stig. Ísland tapaði 0-1 á móti Portúgal vegna þess að Cristiano Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, skoraði ólöglegt mark á 89. mínútu þegar við vorum einum manni færri. Það er ekki hægt að skrifa það á Åge Hareide.
Svo er hægt að benda á að Ísland vann England á útivelli í sumar. Lið sem komst í úrslit EM það sama sumar.
Þar með er ekki sagt að Norðmaðurinn sé fullkominn. Það veldur skiljanlegri gremju hjá mörgum að hann setur mun minni tíma í verkefnið en þeir erlendu þjálfarar sem við höfum reynslu af og kemur ekki til landsins nema hann bráðnauðsynlega þurfi þess. Haldi hann áfram þarf KSÍ að láta hann vita að þetta standi ekki til boða. Þá stingur tap og jafntefli á móti Lúxemborg í fyrra ennþá.
En allt í lagi, segjum sem svo að Hareide fái ekki að vera með liðið lengur. Hver á að taka við?
Þeir sem helst hafa verið nefndir eru Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, og Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk í Belgíu.
Því miður hefur Arnar ekki sýnt nægan andlegan þroska til að takast á við jafn stórt verkefni og íslenska landsliðið. Hann missir stjórn á skapi sínu við minnsta mótlæti og kvartar undan öllu. Ef þjálfari getur ekki haldið andliti í heimaleik á móti Vestra í efstu deild á Íslandi þá getur hann það ekki Wembley.
Freyr er hins vegar annað mál. Freyr hefur alla þá þekkingu og tól sem þarf til að verða frábær landsliðsþjálfari en ég held að það væru mistök fyrir hann sjálfan og íslenska knattspyrnu ef hann myndi hoppa frá verkefninu í Belgíu. Það er greinilegt að Freyr hefur náð að byggja upp gott orðspor í Evrópu eftir árangur sinn með Lyngby og Kortrijk og ekki ósennilegt að hann muni fá tækifæri til að stýra stærri liðum á næstu árum. Slíkt væri dýrmætt fyrir Ísland til lengri tíma litið.
Miloš Milojević er svo nafn sem hefur einnig verið nefnt en Miloš spilaði og þjálfaði á Íslandi í rúman áratug og hefur síðan þjálfað stórlið í Svíþjóð og Serbíu með góðum árangri. Hann er sem stendur að þjálfa í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og ólíklegt að KSÍ sé til að borga Miloš þá upphæð sem þyrfti að fá hann þaðan en talið er að KSÍ sé að leitast eftir að skera niður í launamálum.
Þá er Heimir Hallgrímsson í góðri vinnu hjá írska landsliðinu sem stendur og eflaust of dýr þó hann myndi missa hana.
Þannig að þetta setur KSÍ í ákveðna klemmu. Ég vona innilega að Hareide haldi áfram, ég tel hann vera á góðri vegferð með liðið þrátt fyrir það sé mikill skortur á góðum varnarmönnum og að sumir lykilmenn séu að spila miðlungsdeildum í Evrópu. Hann hefur þjálfað lið til sigurs í efstu deildum Noregs, Danmörkur og Svíþjóð og komið Dönum tvívegis á stórmót. Við erum ekkert að fara fá betri þjálfara fyrir lægra verð.
Verði honum skipt út þá er mín spá að Rúnar Kristinsson taki við. Hann er „ódýr“ og óumdeildur kostur. Allir virða Rúnar og þá þekkingu og reynslu sem hann hefur.