Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Jólahefðirnar þrettán

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 12. tölublaði Hús og híbýla

Jólin eru að mörgu leyti sveipuð rómantískum ævintýrablæ sem er kærkominn í myrkasta skammdeginu. Það er töfrum líkast að horfa á hús og tré þegar þau hafa verið skreytt jólaljósum og ekki skemmir fyrir ef snjór er á trjánum. Þó að jólin séu í dag oftast tengd við fæðingu Krists voru þau í raun til löngu áður, því frá örófi alda hafa margar þjóðir haldið hátíð um þetta leyti árs til að fagna sólhvörfum og það er einmitt þess vegna sem jólin eru stundum kölluð hátíð ljóssins. Íslendingar eru duglegir við að kveikja á kertum og setja upp seríur á þessum árstíma en ég held að það sé ekki endilega vegna hefðarinnar heldur kallar myrkrið hreinlega á að við lýsum það upp. Þegar ég ók heim eitt kvöldið, fremur þreytt og lúin, gladdist ég ógurlega við að sjá að það var búið að festa upp fallegar jólaseríur á nokkur tré í einni götunni sem ég keyrði. Það fór um mig ákveðinn sæluhrollur og ég skildi svo vel þörfina fyrir ljósið á þessum árstíma. Ef ég ætti að setja bara upp eitt jólaskraut myndi ég alltaf velja ljósaseríu eða kerti.

Flestir Íslendingar skreyta mikið og því kannski hægt að segja að við séum svolítil jólabörn sem þjóð. Undanfarin ár hefur orðið jólastress þó æ oftar borið á góma og einnig hefur jólakvíði komið upp í umræðunni. En hvað veldur? Þeir sem ég hef rætt við telja að við gerum mörg hver of mikið og sumir segja svo mikið í gangi alls staðar. Jólatónleikar, jólaföndur, litlu jólin í skólanum, laufabrauðsbakstur, jólaböll, jólaleikrit, bekkjarskemmtanir, leynivinaleikir, jólahlaðborð, starfsmannagleði og jólaglögg, að ótöldum smákökubakstrinum, jólaþrifunum, matarundirbúningnum, jólagjafainnkaupunum og svo þarf að kaupa jólatréð, skreyta húsið og garðinn og pakka inn öllum gjöfunum. Ekki má gleyma jólakortunum og kveðjunum á Snapchat, Instagram, Twitter, Facebook og Whatsapp. En einhvern veginn reddast þetta allt og jólin koma hvort sem þau klæðast rauðu eða hvítu.

Fyrir nokkrum árum vann ég með ungum Frakka sem var þá nýfluttur til Íslands. Þegar komið var fram í nóvember fór hann að forvitnast um ýmislegt sem tengdist íslenskum jólum. Margt vakti undrun hjá honum sem okkur þykir mjög eðlilegt, eins og að hér séu 13 jólasveinar, jólaköttur sem tekur börn sem fá ekki nýjar flíkur og skelfilegar verur, eins og Leppalúði og Grýla sem éta börn. Fyrst hélt hann að ég væri að ljúga og hló mikið og því þurfti ég að fara með hann bókabúð til að sanna mál mitt. Þó að honum hafi þótt hangikjöt gott féll skatan í aðeins grýttari jarðveg og hann skildi ekki af hverju við borðum úldinn fisk þegar við höfum einn ferskasta fisk í heimi. Þegar horft er á jólin í gegnum augu aðkomumannsins sjáum við hlutina í svolítið nýju ljósi. Eru kannski jólaöfgarnar ekki svo nýjar af nálinni? Ættum við kannski að líta á töluna þrettán sem hina gullnu jólatölu og setja upp 13 jólaskraut, fara á þrettán jólatónleika, baka þrettán sortir, setja 13 jólastatusa á samfélagsmiðla, fara í þrettán jólaglögg og þar fram eftir götum, bara svona til að viðhalda hefðunum … ég rata út.

Jólablað Húsa og híbýla er alla vega fallegt og fjölbreytt að vanda en þar eru engar jólaöfgar, bara notalegt og smekklegt þótt jólahugmyndirnar séu nær tölunni hundrað og þrettán.

Þrettánfaldar jólakveðjur,

- Auglýsing -

Hanna Ingibjörg

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -