Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Jólin í september

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er 91 dagur til jóla og í þessari viku mun Garðlist skreyta húsið mitt með jólaseríum sem eiga að sjást frá Tunglinu. Konan mín hefur ákveðnar efasemdir um það að skreyta svona snemma, en það hefur um nokkuð langt árabil verið sérstakt markmið hjá mér að vera fyrstur með jólaskreytingar. Síðastliðin ár hefur það gengið ágætlega, en kapítalistasvínin í Costco skákuðu mér þó þetta árið. IKEA á aftur á móti ekki breik í mig, ef að líkum lætur.

Eins og gefur að skilja, þá er ég dálítið jólabarn. Ástæðan er ekki bara sú að ég elska að fá pakka og slafra í mig hálfmánum (sem vegur þó nokkuð þungt í þessu öllu saman!). Ástæðan er heldur birtan, sem fylgir jólunum. Á mánudaginn var haustjafndægur. Birtustundum mun nú fækka hratt, allt til vetrarsólstaðna þann 21. desember. Þá snýst þetta aftur við og birtan nær yfirhöndinni á vorjafndægri, þann 20. mars. Þetta myrkur fer í mig. Ég er með birtulampa í vinnunni, sem ég hef kveikt á yfir dimmustu dagana. Og þegar dætur mínar fara í vetrarfrí í janúar/febrúar, þá reyni ég að komast í burtu á suðlægar slóðir. Snemmbærar jólaskreytingar eru hluti af þessu öllu saman. Með því að lýsa upp skammdegið gerir maður allt þetta endalausa myrkur aðeins bærilegra.

En ég hef auðvitað ekki alltaf verið neitt brjálað jólabarn. Þó var það þannig, að þegar ég var lítill strákur gaf föðuramma mín mér jólasveinabúning, sem hún hafði saumað á mig, og gæruskinn sem hafði verið sniðið eins og skegg. Ég elskaði þennan búning meira en lífið sjálft og var í honum flesta daga aðventunnar. Ég lét að sjálfsögðu ekki nægja að vera bara í honum heima, heldur tók ég, 5-6 ára, stundum strætó neðan úr Breiðholti í Skeifuna til þess að spóka mig í gallanum í verslun Hagkaupa. Starfsfólk verslunarinnar tók mér alla jafna vel og lét mig hafa stútfullan poka af eplum, sem ég mátti svo gefa viðskiptavinum í jólaösinni. Einu sinni rakst ég samt á aðra jólasveina, sem þar voru við störf, sem kærðu sig ekkert sérstaklega um liðsaukann og tóku mig á eintal bakatil í búðinni. Heimsóknunum fækkaði eftir það.

Eins og hjá flestum unglingum, þá skipuðu jólin ekkert sérstaklega stóran sess í mínu lífi á því árabili. Mér fannst jólaveislurnar ekkert sérstaklega skemmtilegar og þetta var sá tími ársins sem maður umgekkst vini sína minna en ella. Allur þessi fjölskyldutími gerði það líka erfiðara að vera gera einhvern óskunda, eins og mér og mínum fannst svo spennandi á þessum árum.

Eftir að ég varð pabbi byrjuðu jólin aftur að vera skemmtileg. Sem faðir fær maður tækifæri til þessa að upplifa jólin í allri sinni dýrð í gegnum börnin sín, sem spennast upp í æsingnum og geta vart á sér heilum tekið við gerð óskalista og jólaföndurs. Og það eru ekki síst dætur mínar sem fagna snemmbúnum jólaljósum utan á húsinu. Þeim finnst líka pínu sniðugt að pabbi þeirra sé jólanötter, þó svo að þær finni líka til með mömmu sinni, sem hárreytir sig alltaf smávegis frá september fram að fyrsta í aðventu.

Gleðileg jól. Í september.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -