Þriðjudagur 7. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

Jólin sem sósan brann og gosið gleymdist

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 11. tölublaði Gestgjafans

Fyrir nokkru spurði lítil frænka mín mig að því hvað mér þætti skemmtilegast við jólin. Ég þurfti svo sem ekki að hugsa mig lengi um og sagði eðlilega, maturinn. En svo fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna maturinn væri svona mikilvægur þar sem ég fæ mér mjög oft gott að borða og raunar hafa margir tekið forskot á sæluna á hinum ýmsu jólahlaðborðum.

Getur verið að það sé ekki bara maturinn í sjálfu sér heldur borðhaldið, hátíðleikinn og stemningin sem myndast á aðfangadagskvöld og er kannski mesta tilhlökkunarefnið? Að setjast niður með fjölskyldunni við fallega skreytt borð þar sem sparistellið hefur verið dregið fram ásamt nýfægðu silfri, logandi kertum og tauservíettum með silfurhring sem kristalglösin speglast í, er nefnilega alger unun. Kannski er það einmitt þetta sem gerir jólin einstök. Ég ætla reyndar ekki að gera lítið úr matnum enda leikur hann stórt hlutverk og verður vissulega að vera góður.

Eins og með allt þá eru jólin mismunandi milli fjölskyldna og sennilega eru engin jól alveg nákvæmlega eins. Mér finnst afskaplega gaman að heyra hvaða siði og venjur fólk er með í kringum þessa hátíð. Á sumum heimilum eru hefðirnar miklar og í svo föstum skorðum að jaðrar við trúarbrögð … kannski ekki besta orðið til að nota svona í ljósi þess að jólin eiga nú að heita trúarhátíð, þótt það það vilji stundum gleymast. Ég ólst t.d. upp við að fara í kirkju á aðfangadag, það var alger skylda og jafnvel veikindi dugðu okkur krökkunum ekki til að sleppa við þessa kvöl, en á mínu heimili var annars aldrei farið til messu nema ef einhver var jarðaður, giftur eða skírður.

Ég skildi því aldrei þessa ofurtrúrækni á þessum eina degi ársins en samt vandist þetta og þegar ég varð eldri fannst mér jólin ekki koma nema fara í kirkju og raunar hélt ég í þessa hefð í nokkuð mörg ár eftir að ég flutti að heiman. En sumir eru svo stífir á hefðunum að allt er ónýtt ef hlutirnir ganga ekki upp eins og gerðist til dæmis eitt árið hjá vinkonu minni í æsku. Þá uppgötvaðist nokkrum mínútum fyrir sex að gleymst hefði að kaupa malt og appelsín sem hafði um árabil verið órjúfanlegur hluti af jólamáltíðinni. Mamma hennar stressaðist svo upp að hún brenndi sósuna og settist örmagna á eldhússtólinn þar sem hún grét í hljóði. Eftirleiðis voru þessi jól kölluð jólin sem sósan brann og gosið gleymdist.

„Ef jólin eiga að vera gleðileg eins og kveðjan sem við köstum gjarnan hvert á annað á aðventunni mæli ég með að fólk slaki aðeins á kröfunum og velji sér baráttu.“

Væntingarnar eru nefnilega stundum svo miklar að fullkomnunaráráttan getur borið fólk ofurliði. Ef jólin eiga að vera gleðileg eins og kveðjan sem við köstum gjarnan hvert á annað á aðventunni mæli ég með að fólk slaki aðeins á kröfunum og velji sér baráttu. Jólaréttirnir þurfa nefnilega ekki að vera mjög flóknir til að vera góðir og um að gera að setja saman matseðil þar sem sumt er auðvelt og hægt að vinna sér í haginn. Góð regla er líka að nota pottþéttar og prófaðar uppskriftir en allar uppskriftirnar sem gerðar eru í eldhúsi Gestgjafans eru prófaðar og smakkaðar af nokkrum. Að lokum er gott að hafa plan b og eiga eitthvað í ísskápnum ef steikin misheppnast, sósan brennur og gosið gleymist og svo má alltaf grípa í plan c ef einhver hefur gleymt að kaupa jólasteikina og blanda sér góðan  kokteil … bara að jólin séu gleðileg.

- Auglýsing -

Sjá einnig: Jólablað Gestgjafans – veisla fyrir bragðlaukana

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -