Sunnudagur 19. janúar, 2025
0.7 C
Reykjavik

Jón Ólafsson og landslag skýjanna – Takk!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar ég var 12 ára, árið 1983, var Rás 2 sett á laggirnar. Fór í loftið þann 1. desember þetta góða ár.

Fyrst um sinn voru útsendingar í heila fjóra klukkutíma á dag; frá 10 til 12, síðan kom tveggja tíma matarpása og svo var haldið áfram frá klukkan 14 til 16.

Ég var í Víðistaðaskóla á þessum tíma; fyrir utan þann skóla var ég aðeins í fjóra mánuði í Öldutúnsskóla, en þetta eru auðvitað vita gagnslausar upplýsingar sem ég elska.

Allt breyttist.

Allir hlustuðu stjarfir og spenntir á vinsældalistann sem var aðalmálið; sala á kassettum jókst um 123,67 þúsund prósent á Íslandi í kjölfarið. Það var tekið upp eins og enginn væri morgundagurinn. Það var mun vinsælla að taka upp lög á kassettu í gegnum Rás 2 en að taka upp kartöflur í Þykkvabæ og nágrenni; gullaugun voru Duran Duran, Wham, Frankie Goes To Hollywood, David Bowie, Ultravox og bara hitt og þetta, aðallega þetta (ferskur húmor).

- Auglýsing -

Svo var það Jón Ólafsson. Eini Jón Ólafssonurinn sem vert er að leggja á minnið.

Útvarpsmaðurinn Jón Ólafsson. Sjónvarpsmaðurinn Jón Ólafsson. Tónlistarsnillingurinn Jón Ólafsson.

Hann hóf sem betur fer störf á Rás 2 og var alltaf bestur; skemmtilegastur og fyndnastur; spilaði geggjað flotta tónlist líka. Voða fáir sem tikka í öll þau box sem Jón Ólafsson tikkar í.

- Auglýsing -
Mynd / Úr einkasafni Jóns Ólafssonar.

Léttir Sprettir Jóns Ólafssonar á Rás 2 voru þættir sem fengu mann til að trúa að það væri ekki að skella á kjarnorkustyrjöld um stund; að Ísland væri ekki lokað kommúnistaríki; fengu mann til að hlæja og hafa gaman af lífinu; svo vellíðanin öll sem framkallaðist er maður hlustaði á lögin sem Jón spilaði.

Ég og vinur minn Jón Berg misstum aldrei af Léttum sprettum og ætluðum síðan ekki að trúa eigin eyrum né augum; lifur eða lungum; Jón var tónlistarmaður og hann var líka góður þar eins og í útvarpinu: Hetja var fædd í augum tveggja ungra drengja.

Er við heyrðum lagið Móðurást með hljómsveitinni Possibillies fengum við það endanlega staðfest að þessi Jón Ólafsson útvarpsmaður væri líka frábær tónlistarmaður.

Já, Jón Ólafsson hefur verið lengi að í fjölmiðlalandslagi Íslands; landslagi skýjanna. Þar heldur hann utan um alla þræði af öryggi og smekkvísi.

Hann hefur galdrað fram perlur í útvarpi, sjónvarpi, með hljómsveitunum sínum í gegnum tíðina; Nýdönsk, Possibillies, Sálin hans Jóns míns, Bítlavinafélaginu og líka sólóefni; upptökustjórn og ég veit ekki hvað og hvað.

Jón Ólafsson er þjóðargersemi.

Takk!

Ps: Jón Ólafsson heldur upp á stórafmæli sitt með glæsilegum tónleikum í Hörpu þar sem margt af okkar fremsta tónlistarfólki samfagnar kappanum á sviði Eldborgar. Þar má nefna Nýdönsk, Pál Óskar, Valdimar, Möggu Stínu, Hildi Völu, KK og Possibillies.

Tónleikarnir fara fram á laugardaginn í Hörpu og hefjast klukkan 20. Miða er enn hægt að nálgast á tix.is og á harpa.is.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -