Þriðjudagur 29. október, 2024
4.7 C
Reykjavik

Kærleikur og hugvit

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Heiða B. Hilmisdóttur

Heimurinn hefur einhvern veginn minnkað síðustu áratugi og við erum meðvitaðri, eða höfum a.m.k. tækifæri til að vera meðvitaðri en nokkurn tíma um aðstæður og líðan fólks um allan heim. Hörmungar eins og stríð, náttúruhamfarir, glæpir, limlestingar kvenna og hryðjuverk eru hluti af daglegum fréttalestri. Fréttir af hryðjuverkum fá gjarna mikla athygli enda eru hryðjuverk hræðileg og ógnvekjandi en þeirra helsta markmið er að koma samfélögum úr jafnvægi og skapa hræðslu. Þannig má breyta skoðunum almennings, markmiðum og orðræðu stjórnmálanna og minnka samstöðu og samkennd í samfélögum. Tortryggin og hrædd manneskja býr við skert frelsi og samfélög þar sem fólk er hrætt, eiga á hættu að verða lokuð og dæmandi í stað þess að vera opin og forvitin um mismunandi hefðir, venjur og menningarheima. Samkennd og kærleikur breytist í fyrirvara og fordóma.

„Við þurfum að hugsa upp á nýtt hvernig við ætlum að stuðla að því að fólk frá mismunandi menningarheimum geti búið saman í sátt og samlyndi.“

Gefandi fjölbreytileiki
Það er að mörgu leyti mjög fallegt að meginhluti íbúa jarðar telur einmitt menningu síns lands eða þjóðfélags þá ákjósanlegustu. Hin hliðin á þeim peningi er hins vegar sú að ýmsir vilja af sömu ástæðu ógjarna fá fólk frá öðrum menningarheimi til sín. Á sama tíma finnst meginhluta íbúa jarðar að þeim eigi að standa til boða að flytja til annarra menningarheima. Í þessu er skemmtileg þversögn sem að mörgu leyti er skiljanleg, við elskum okkar menningu og ef við trúum því að henni sé ógnað með þátttöku fólks frá öðrum menningarheimum er skiljanlegt að við viljum loka á alla sem ekki líta út eða tala eins og við eða gætu breytt því sem við þekkjum svo vel. Þarna förum við Íslendingar, rétt eins og aðrar þjóðir, á mis við að nýta hæfileika og þekkingu fólks sem vill eða neyðist til að flytja á milli landa og þeirra sem hér vilja búa og deila með okkur menningu Íslands.

Mennska í stað hræðslu
Ástand jarðarinnar í kjölfar loftslagsbreytinga, alþjóðavæðingar og fjórðu iðnbyltingarinnar mun kalla á mikla fólksflutninga í nálægri framtíð og sú þróun er þegar hafin. Í því felast líka tækifæri fyrir lítið land eins og Ísland, til að mynda til að auðga sína menningu og og getu íslensks samfélags til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Við þurfum róttækar breytingar þar sem við látum ekki hræðslu stjórna okkar stefnu, heldur mennsku, kærleika og hugvit. Opið samfélag þar sem fólk er tilbúið til að læra hvert af öðru, sýnir menningu ólíkra hópa áhuga og upplifir samstöðu, stuðlar að aukinni hagsæld og hamingju. Við þurfum að hugsa upp á nýtt hvernig við ætlum að stuðla að því að fólk frá mismunandi menningarheimum geti búið saman í sátt og samlyndi og með því grætt á þeim fjölbreytileika og grósku sem slík samfélög skapa.

Höfundur er borgarfulltrúi og varaformður Samfylkingarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -