Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Kampavín í 38 þúsund fetum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 12 tbl. Gestgjafans

Ég var ellefu ára gömul þegar ég fór til útlanda í fyrsta sinn en sá dagur líður mér seint úr minni. Ég hafði beðið eftir þessari stund í margar vikur og hlakkaði mikið til að fá loksins að innrita mig í flug, kaupa saltpillur og stíga upp í þotu. Ég man líka að margir þjóruðu bjór þennan morgun og það lá mikil gleði í loftinu. Mér fannst appelsínugulu flugvélasætin töff og flugfreyjurnar sem liðu um eins og gyðjur í ævintýramynd æðislegar. Hamingja mín var svo mikil að ég bauð freyjunum sælgæti í hvert sinn sem þær áttu leið hjá enda höfðu þær fært mér dásamlegan flugvélamat á bakka í alls konar litlum boxum, sem mér fannst í meira lagi spennandi. Á þessum árum var algengasta spurningin eftir flug hvernig maturinn hefði verið um borð en í dag er oftast spurt hvernig flugið hafi verið. Tveimur og hálfum tíma eftir að hafa svifið um háloftin lenti ég á Heathrow-flugvelli í sól og hita og ég mun aldrei á ævinni gleyma lyktinni og hitaveggnum sem tók á móti mér, þetta var eins og
að lenda á annarri plánetu. Fólk frá öllum heimshornum þrammaði um gangana í kuflum og skrautlegum kjólum með túrbana, blæjur, hatta og allt þar á milli. Ég varð ekkert minna hissa þegar við brunuðum svo eftir hraðbrautinni á vinstri akreininni með stýrið vitlausum megin.

Eftir þetta ferðalag hafði veröld mín stækkað svo um munaði og ég var líka komin með ferðabakteríuna sem hefur fylgt mér alla tíð síðan. Ég ætla því ekki að draga neina dul á að það hefur reynst mér erfitt undanfarna mánuði að komast ekki til útlanda því í ferðalögum hef ég náð að hlaða batteríin, víkka sjóndeildarhringinn og senda bragðlaukana á vit ævintýranna. Ein leiðin hjá mér til að kljást við útþrána á þessum tímum er að ferðast í gegnum bragðlaukana og það höfum við hér á Gestgjafanum gert með fjölbreyttum
matarþáttum frá ýmsum heimshornum sem ég vona að lesendur hafi getað nýtt sér. Stundum er sagt að lífið sé ferðalag. Ef við göngum út frá því er óhætt að segja að þessi blessaði COVID-faraldur sé langt vont flug með reglulegri ókyrrð þar sem allir þurfa að spenna beltin, setja upp sætisbökin og treysta flugstjóranum frekar en flugvitanum í sætinu við hliðina á okkur. Það kemst hvort eð er enginn út úr vélinni fyrr en hún er lent heilu og höldnu með alla innanborðs. En gleymum ekki, nú þegar glittir í land, að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið.

Stór hluti af ferðalögum er eftirvæntingin vikurnar og mánuðina á undan og við ættum því að geta byrjað að hlakka til að komast út úr þessari ókyrrð. Ég fæ til dæmis fiðring í magann við tilhugsunina um að heyra „Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar, við munum fljúga í 38.000 fetum“ og þótt ótrúlegt megi virðast sé ég seigu skinkusamlokuna um borð í hillingum og skammast mín ekkert fyrir það. Ég stend mig líka oft að því að vera óvart farin að stílisera matarþættina í bláum og gulum litum Icelandair og skrifa ferðagreinar þegar ég á að vera að skrifa pistla. Vonandi bíða okkar allra ný og spennandi ævintýri á komandi ári hvort sem er í háloftunum eða heima. Þótt óvissan sé enn mikil
getum við verið viss um að allir munu verða fegnir að sprengja upp árið 2020 og skála fyrir 2021. Ég ætla í það minnsta að skála í góðu kampavíni sem verður borið fram á gráum bakka með litlum hnetupoka, í plastglasi ofan á hvítri servíettu og það mun örugglega skvettast svolítið upp úr glasinu því enn er von á svolítilli ókyrrð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Eina fagtímaritið um mat og vín á Íslandi

Gestgjafinn

Tryggðu þér áskrift á 1.790 kr. á mánuði eða kauptu stakt blað á 1.890 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -