Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Kerfislæg kynþáttahyggja á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Rósu Björk Brynjólfsdóttur

Í síðustu viku lét aðstoðaryfirlögregluþjónn höfuðborgarsvæðisins hafa eftir sér í viðtali á RÚV að með glænýjum „landamæraeftirlitsbíl“ lögreglunnar væri nú hægt að stöðva „bíla með Albönum og Rúmenum …“ og „Þá athugum við hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera,“ og „Þá hnippum við í þá og ýtum þeim út.“.

Þessi frétt vekur upp ýmis viðbrögð og spurningar.

Í fyrsta lagi þá eru þessi orð yfirmanns í lögreglunni grafalvarleg og á þeim þarf að biðjast afsökunar af hálfu lögregluyfirvalda. Það er ekki boðlegt að lögreglan taki út fyrir sviga tvö þjóðerni og lýsi því yfir að hún ætli sér að taka fyrir bíla með fólki af því þjóðerni. En því miður baðst nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins ekki afsökunar á orðum aðstoðaryfirlögregluþjónsins, heldur sagði í viðtali við Vísi að lögregla „hafi afskipti af miklu fleirum þjóðernum“ og vísar til hlutverks lögreglu vegna Schengen-reglna.

Hvernig tekur lögreglufólk ákvörðun um það hvern á að stöðva og á grundvelli hvers?  Er það útlit? Húðlitur eða háralitur? Eða er það eitthvað annað sem gerir það að verkum að lögreglan stöðvi bíla sem líta út fyrir að vera „með Albönum og Rúmenum“ eða hafi „afskipti af miklu fleirum þjóðernum“? Getur margt fólk verið stöðvað því það lítur út fyrir að vera af öðru þjóðerni en íslensku?

Íslenskt samfélag er orðið mun fjölbreyttara en áður. Sem betur fer. Í fyrra voru skráðir löglega hér á landi 174 einstaklingar með albanskt ríkisfang eða íslenskir ríkisborgarar sem voru áður albanskir ríkisborgarar. Og í fyrra voru  1.661 einstaklingur skráður á Íslandi með rúmenskt ríkisfang eða íslenskir ríkisborgarar sem höfðu áður haft rúmenskan ríkisborgararétt. Og tugþúsundir íbúa af erlendum uppruna eru löglega skráðir á Íslandi.

- Auglýsing -

Hvernig ætlar lögreglan að vega og meta hvert af því fólki eigi að stöðva ? Fyrstu fregnir af því voru ekki mjög traustvekjandi, lögregla hefur með nýja „landamæraeftirlitsbílnum“ tekið til athugunar um 100 manns en aðeins fundið átta manns sem dvelja hér á landi ólöglega.

Það er ekki hlutverk lögreglu að rúnta um á „landamæraeftirlitsbíl“ og leita uppi fólk sem lítur út fyrir að vera af öðru þjóðerni en íslensku. Það hefur ekkert með aðild okkar að Schengen-samkomulaginu að gera sem kveður á um samhæfingu á ytri landamærum Schengen-landa.

„Racial profiling“ eða fyrir fram ákveðin kynþáttahyggja er grunnstefið í fjölmennum mótmælum víða um heim síðastliðnar vikur þar sem fyrir fram ákveðinni kynþáttahyggju, sérstaklega af hálfu lögregluyfirvalda, hefur verið mótmælt.

- Auglýsing -

Að mismuna fólki fyrir fram sökum hörundslitar brýtur gegn mannréttindalögum og stjórnarskrá Íslands. „Racial profiling“ er því grafalvarlegur hlutur. Fræða þarf fólk um þetta hugtak og hvaða áhrif það getur haft, eins og aukið vantraust samfélagshópa á yfirvöld. Þess vegna skulum við sleppa því að nefna stöðugt þjóðerni þeirra sem fremja glæpi, það kyndir undir kynþáttafordómum. Það var gott að sjá að ríkislögreglustjóri vill rannsaka hvort kynþáttafordómar þrífist innan lögreglunnar og rýna í samskipti hennar við innflytjendur. Best er þó að byrja á fræðslu og þjálfun. Það ásamt auðmýkt og virðingu er það sem þarf til að uppræta fordóma.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -