Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Kjaftatífur og kvikindi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Engum er vel við klöguskjóðu. Rætur vandlætingarinnar og andstyggðarinnar á þeim liggja djúpt í bernskunni. Þegar við gerðum hvert skammarstrikið á fætur öðru, stundum í algeru hugsunarleysi, þess á milli af þeirri einföldu ástæðu að við vorum sannfærð um að við kæmumst upp með það. Við völdum af fullkomnu samviskuleysi að brjóta reglurnar. Þegar ég var barn var yngri systir mín í hlutverki uppljóstrarans. Rétt í þann mund að ég taldi mig sloppna, fór hún til mömmu og sagði til mín. Bláeyg og heilög af innrætingu sunnudagsskólans horfði hún á mig og sagði: „Ég vildi bara vera heiðarleg.“

Mikið skelfing fannst mér hún ömurlega leiðinleg. En það versta var að hún var fullkomlega einlæg. Boðskapurinn um hreinskiptni og heiðarleika hafði einfaldlega náð til hennar. En frá mínum bæjardyrum séð var það ekki heppilegt. Ég þurfti að axla ábyrgð á gerðum sem voru skipulagðar með það í huga að enginn kæmist að því hver stæði að baki. Að auki þótti mér systir mín gróflega svíkja okkar systralag, enda hún gjarnan þátttakandi í afbrotunum. En sjaldnast náði ég samt að rækta reiðina gagnvart henni. Einkum vegna þess að ég vissi upp á mig skömmina þótt mér þætti óþolandi að henni var metið til refsilækkunar að hún hafði sagt sannleikann.

Syndir okkar systra voru vissulega ekki mjög alvarlegar og þó, stórfelldur jólakökustuldur sem ég átti upptökin að og náði að gera hana samseka með nokkrum ómótstæðilegum bóndakökum, talsverðu magni af leikföngum og fötum sópað undir rúm á tiltektardegi, stígvél leiðindaskjóðunnar í næsta húsi fyllt af drullu og vel falin vasaljós til að geta lesið fram eftir á kvöldin þegar við áttum að vera sofnaðar. Ekki má gleyma deginum þegar ég efndi til keppni milli okkar frændsystkinananna í stökki yfir skítaskurðinn í sveitinni hjá afa og ömmu og ríflega þriðjungur lenti í honum miðjum. Vissulega hefði ég þegið að systir mín hefði kosið að halda kjafti yfir því hvaða snillingur taldi þennan viðburð tilvalinn til að efla andann í hópnum. En hvort sem brotið er stórt eða smátt er kjarni málsins ávallt sá sami, klöguskjóðan er ekki aðalatriðið, heldur afbrotið og brotamaðurinn. Alveg sama þótt klöguskjóðan hafi líka gerst sek um sömu háttsemi.

Vissulega var stundum freistandi að álykta sem svo að systir mín hafi sagt frá uppátækum mínum til að koma mér í vandræði, hefna sín á mér fyrir margs konar stríðni og kúgun í krafti þess að ég var eldri. En þegar upp er staðið, skiptir það þá nokkru máli hver ástæðan að baki uppljóstruninni var? Ég hafði gert nákvæmlega og akkúrat það sem upp á mig var borið. Þjófur er jú þjófur sama hvort og hvernig upp um hann kemst. Klöguskjóðan kann að hafa sínar ástæður fyrir að gera upp málin og kannski iðrast hún raunverulega að hafa tekið þátt í óknyttunum. Mergurinn málsins er alltaf sá að hver og einn er ábyrgur fyrir að halda sínu fjósi hreinu og takist honum það, er ekkert upp á hann að klaga.

Leiðarinn úr 44. tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -